Því lélegri sem þær halda okkur því betra

Guðbjörg Gunnarsdóttir mun eflaust hafa í nógu að snúast í ...
Guðbjörg Gunnarsdóttir mun eflaust hafa í nógu að snúast í Tilburg annað kvöld. mbl.is/Golli

Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, kippir sér ekki mikið upp við það þó að leikmenn franska landsliðsins virðist sáralítið vita um leikmenn íslenska liðsins fyrir leik þjóðanna á EM annað kvöld.

Þjálfari franska liðsins, Olivier Echouafni, vék sér undan því að nefna hvaða leikmenn hann teldi besta í íslenska liðinu þegar hann ræddi við fréttamenn fyrr í dag, og virtist ekki geta nefnt neinn þeirra án þess að líta á minnisblað. Fyrirliðinn Wendie Renard nefndi heldur engan sérstakan leikmann í íslenska liðinu, og aðspurð hvort hún teldi örla á vanmati í herbúðum franska liðsins svaraði Guðbjörg:

„Þær eru frekar hrokamiklar að upplagi,“ en dró svo úr orðum sínum áður en hún bætt við: „Þær eiga alveg innistæðu til að vera svolítið kokhraustar, með mjög gott lið. Það hefur engin áhrif á okkur hvort þær þekkja okkur með nafni eða ekki. Því lélegri sem þær halda að við séum, því þægilegra finnst mér það vera,“ sagði Guðbjörg og glotti.

Sara Björk Gunnarsdóttir sat einnig fyrir svörum og var spurð út í leikmenn franska landsliðsins, en hún mætti meðal annars nokkrum þeirra með Wolfsburg í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vor.

„Þetta eru frábærir leikmenn. Wendie [Renard] er heimsklassavarnarmaður og frábær skallamaður sem ég mætti þegar við lékum gegn Lyon. Við þurfum að passa hana sérstaklega í föstum leikatriðum,“ sagði Sara. „Svo hef ég spilað með Élise [Bussaglia], sem er frábær leikmaður með góðan hægri fót, góðar spyrnur,“ bætti hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina