Nístingssárt tap gegn Frökkum

Jessica Houara og Fanndís Friðriksdóttir í baráttunni í Tilburg í ...
Jessica Houara og Fanndís Friðriksdóttir í baráttunni í Tilburg í kvöld. AFP

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu varð að sætta sig við grátlegt tap gegn Frakklandi, 1:0, í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu í Hollandi. Frábær barátta íslenska liðsins í 90 mínútur virtist ætla að duga en Frakkar tryggðu sér sigur með marki úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok.

Ísland og Sviss eru því án stiga í riðlinum og mætast á laugardaginn. Þá mætast einnig Frakkland og Austurríki sem eru með 3 stig hvort. Tvö lið komast áfram úr riðlinum og í 8-liða úrslit.

Þrír leikmenn í byrjunarliði Íslands höfðu aldrei leikið mótsleik fyrir liðið áður, þær Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir og Agla María Albertsdóttir, en ekki var að greina mikinn byrjendaskjálfta í þeim. Ísland gaf tóninn strax í upphafi leiks með mikilli baráttu og vel tímasettum tæklingum. Liðinu gekk hins vegar illa að halda boltanum og það kom frekar í hlut Frakka, sem sköpuðu þó ekki mörg færi í fyrri hálfleiknum.

Frakkar voru þó afar nálægt því að komast yfir á 35. mínútu þegar Dagný Brynjarsdóttir bjargaði, nánast á marklínu. Nánast strax í kjölfarið átti Dagný skalla rétt fram hjá marki Frakka, eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýjar Gísladóttur.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks hefði Ísland átt að fá vítaspyrnu, þegar Laura Georges braut á Fanndísi Friðriksdóttur innan teigs, en ekkert var dæmt. Íslenska liðið mótmælti harðlega og Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari fékk gult spjald fyrir mótmæli, samkvæmt nýjum reglum um að sýna megi þjálfurum gult og rautt spjald eins og leikmönnum.

Franska liðið var aðgangshart í upphafi seinni hálfleiks en Ísland fékk líka sínar sóknir. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var hársbreidd frá því að ná skalla af stuttu færi á 57. mínútu, í kjölfarið á löngu innkasti.

Á 70. mínútu átti varamaðurinn Katrín Ásbjörnsdóttir frábæra sendingu yfir vörn Frakka og Fanndís var nálægt því að sleppa ein að marki, en glæfralegt úthlaup Söruh Bouhaddi út fyrir vítateiginn gekk upp og fékk hún boltann á brjóstkassann áður en hún sparkaði fram.

Élodie Thomis slapp í gott færi skömmu síðar en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði skot hennar. Guðbjörg var afar örugg í leiknum og varði oft vel. Wendie Renard átti einnig hörkuskalla í þverslá eftir hornspyrnu, en hún skapaði oftar hættu með gríðarlegum styrk sínum í loftinu.

Auk Katrínar komu Harpa Þorsteinsdóttir og Elín Metta Jensen inn á þegar leið á leikinn. Þegar aðeins fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kom áfallið, þegar vítaspyrna var dæmd á Elínu Mettu fyrir vægt brot á Amandine Henry innan teigs. Það virtist þó réttur dómur.

Ísland reyndi að skapa sér færi til að jafna metin, dyggilega stutt af þúsundum frábærra áhorfenda í stúkunni, en Frakkar fóru með sigur af hólmi.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður ítarlega um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Frakkland 1:0 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Hetjuleg barátta íslenska liðsins en það er vítaspyrna í blálokin sem skilur liðin að í kvöld.
mbl.is

Bloggað um fréttina