Þýskaland vann og Svíar áfram þrátt fyrir tap

Babett Peter fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa komið …
Babett Peter fagnar með liðsfélögum sínum eftir að hafa komið Þýskalandi yfir gegn Rússlandi. AFP

Þýskaland og Svíþjóð tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Evrópumóts kvenna í knattspyrnu og fara áfram upp úr B-riðli keppninnar.

Þýskaland tryggði sér efsta sæti riðilsins eftir öruggan sigur á Rússum, 2:0. Þjóðverjar höfðu mikla yfirburði í leiknum en gekk illa að skora. Bæði mörkin komu af vítapunktinum, fyrst var það Babett Peter sem skoraði á 10. mínútu og seinna vítið tók Dzenifer Marozsan á 56. mínútu og skoraði. Lokatölur 2:0 fyrir Þýskalandi.

Svíar lentu hins vegar í kröppum dansi gegn Ítalíu en þar var það ítalska liðið sem hrósaði 3:2-sigri. Daniela Sabatino skoraði tvívegis í fyrri hálfleik fyrir Ítalíu, en í millitíðinni minnkaði Lotta Schelin muninn fyrir Svíþjóð úr vítaspyrnu. Stina Blackstenius jafnaði snemma eftir hlé en það var Cristiana Girelli sem innsiglaði sigur Ítalíu fimm mínútum fyrir leikslok, 3:2.

Það dugði hins vegar ekki til fyrir Ítalíu sem fékk þrjú stig eins og Rússar og bæði lið eru á heimleið. Þýskaland vann riðilinn og mætir Danmörku í átta liða úrslitunum en Svíar mæta Hollendingum, sigurvegurum A-riðils, í átta liða úrslitunum.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 29. MARS

Útsláttarkeppnin