Ekkert að hugsa um að eyðileggja partýið aftur

Nina Burger og Sarah Zadrazil fagna marki á EM. Austurríki …
Nina Burger og Sarah Zadrazil fagna marki á EM. Austurríki var í neðsta styrkleikaflokki fyrir mótið en hefur komið mörgum á óvart. AFP

Annað árið í röð gætu Íslendingar svipt Austurríkismenn draumi um frækinn árangur á knattspyrnusviðinu, þegar þjóðirnar mætast í Rotterdam í kvöld á Evrópumóti kvenna.

Fyrir rúmu ári vann karlalandslið Íslands 2:1-sigur á Austurríki og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi, en sendi um leið Austurríkismenn heim. Austurrískur blaðamaður spurði Frey Alexandersson landsliðsþjálfara út í þetta á fréttamannafundi í Rotterdam í gær, og hvort Ísland ætlaði sér að „eyðileggja aftur partýið“ í Austurríki:

„Ég hef ekkert hugsað um leikinn á EM karla í fyrra. Við hugsum ekkert um hvað Austurríki er að gera og þeirra örlög eru í þeirra höndum. Við hugsum einungis um okkar leik. Ef við vinnum þá er það ekki af því að við viljum eyðileggja partýið hjá Austurríki. Við viljum bara uppskera aðeins eftir allt sem við höfum lagt í þetta mót,“ sagði Freyr.

Á meðan Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa hefur Austurríki unnið Sviss, 1:0, og gert 1:1-jafntefli við Frakka. Austurríki er þar af leiðandi í svo góðri stöðu að jafnvel þó að liðið tapaði gegn Íslandi í kvöld myndi það komast í 8-liða úrslit ef Sviss tækist ekki að vinna Frakkland.

„Þetta kemur mér ekkert á óvart. Við höfum fylgst vel með austurríska liðinu. Ég hitti þjálfara Austurríkis í vetur og ræddi við hann um það sem þau hafa verið að gera. Þróunin hefur verið mjög góð síðustu 3-4 árin. Ég vissi fyrir mótið að liðið þyrfti kannski smáheppni í föstum leikatriðum eða hjá dómaranum, og heppnin hefur verið með þeim í liði, en liðið hefur líka gert nóg til að fá þessa heppni. Ég veit að liðið mun áfram vaxa,“ sagði Freyr.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin