Nýliði mun berjast um gullið á EM í ár

Hin enska Jodie Taylor hefur skorað fimm mörk í þremur …
Hin enska Jodie Taylor hefur skorað fimm mörk í þremur leikjum til þessa á EM. AFP

Í dag er spilað um farseðilinn í úrslitaleik Evrópumóts kvenna í knattspyrnu þar sem annars vegar mætast Austurríki og Danmörk klukkan 16 og hins vegar gestgjafar Hollands og England klukkan 18.45.

Hvorki Danmörk né Austurríki hafa komist í úrslitaleik EM og því ljóst að nýliði um berjast um gullið í ár. Austurríki, sem var með Íslandi í C-riðlinum, er án efa spútniklið mótsins og hefur ekki enn tapað á sínu fyrsta stórmóti. Liðið verður án Lisu Makas sem mun ekki geta tekið frekari þátt á EM vegna meiðsla sem hún hlaut í sigrinum gegn Spáni í átta liða úrslitunum.

Danmörk hafnaði í öðru sæti síns riðils eftir tap fyrir Hollandi, en þetta er í sjötta sinn sem Danmörk kemst í undanúrslit EM og hefur liðið aldrei borið sigur úr býtum. Þessar þjóðir hafa aðeins tvívegis mæst áður í keppnisleik, í undankeppni EM 2013, og skiptu þar með sér sigrunum.

Pressan er á Englandi

England og Holland hafa unnið alla leiki sína til þessa á mótinu en þessi lið mættust einmitt í undanúrslitum á EM í Finnlandi árið 2009. Þá skoraði Jill Scott sigurmark Englands í framlengingu, en hún verður í banni í leiknum í dag. Auk hennar er markvörðurinn Karen Bardsley fjarri góðu gamni eftir að hafa brotið bein í fæti í leiknum við Frakka í átta liða úrslitunum. Engin forföll eru hins vegar í hollenska liðinu.

Hin enska Jodie Taylor í liði Englands er langmarkahæst á mótinu til þessa, hefur skorað fimm mörk í þremur leikjum, en enginn annar leikmaður hefur skorað fleiri en tvö mörk. Mikil pressa er komin á enska liðið eftir að stórþjóðir á borð við Frakkland og Þýskaland eru úr leik.

Næstflestir frá upphafi

Gríðarlegur áhugi er fyrir leiknum og uppselt er á leikvanginn í Enschede en hann rúmar 30 þúsund manns. Það þýðir að nýtt met verður sett yfir fjölda áhorfenda á kvennaleik í Hollandi, en tæplega 22 þúsund manns sáu upphafsleik mótsins milli Hollands og Noregs.

Þá verður þetta næstmesta aðsókn á leik á EM kvenna. Metið var sett á úrslitaleiknum 2013 í Stokkhólmi þegar 41.301 sá leik Þýskalands og Noregs. Næstur í röðinni var leikur Englands og Finnlands í lokakeppninni á Englandi 2005 en þá mættu 29.092 áhorfendur á völl Manchester City.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin