Hollendingar fjórðu Evrópumeistararnir

Hollenska liðið fagnar Evrópumeistaratitlinum.
Hollenska liðið fagnar Evrópumeistaratitlinum. AFP

Hollenska kvennalandsliðið í knattspyrnu varð í dag aðeins fjórða liðið til að verða Evrópumeistari, eftir 4:2 sigur á Danmörku í úrslitaleik. Þýskaland hefur haft mikla yfirburði í evrópskri kvennaknattspyrnu og orðið Evrópumeistari sex sinnum í röð fyrir mótið í ár. 

Besti árangur Hollands fyrir mótið í dag var árið 2009 þegar liðið komst í undanúrslit og var liðið ekki talið sigurstranglegt á mótinu.

Ísland mætti hollenska liðinu í vináttuleik stuttu fyrir mót og vann hollenska liðið þá sannfærandi 4:0 sigur og hélt frábær spilamennska þeirra áfram þegar komið var á stóra sviðið. 

Hollenska liðið vann alla sex leiki sína á mótinu og fékk aðeins þrjú mörk á sig í leiðinni. Lieke Martens var valinn besti leikmaður mótsins, en hún skoraði þrjú mörk á mótinu og var gríðarlega ógnandi á vinstri kantinum. 

„Úrslitaleikurinn var gríðarlega opinn, það voru tvö lið sem voru að spila fótbolta. Það er mikilvægt fyrir kvennafótboltann að úrslitaleikurinn var svona góður," sagði Sarina Wiegman, þjálfari Hollendinga.

Vivianne Miedema skoraði tvö mörk í leiknum. „Við spiluðum sex frábæra leiki og við sýndum að við getum náð mjög langt, þrátt fyrir að lenda undir. Við áttum svo sannarlega skilið að verða Evrópumeistarar," sagði hún.  

Jodie Taylor, framherji enska liðsins vann gullskóinn en hún skoraði fimm mörk á mótinu. 

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 23. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 23. APRÍL

Útsláttarkeppnin