Sú besta fer til Barcelona

Lieke Martens með verðlaunagripinn í gærkvöld.
Lieke Martens með verðlaunagripinn í gærkvöld. AFP

Hollenski miðjumaðurinn Lieke Martens var í gærkvöld útnefnd besti leikmaður Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu eftir að Hollendingar sigruðu Dani, 4:2, í fjörugum úrslitaleik keppninnar í Enschede.

Martens skoraði eitt marka hollenska liðsins og varð í þriðja til fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn EM með 3 mörk, jafnmörg og landa hennar Sherida Spitse. Markahæstar voru Jodie Taylor  frá Englandi með 5 mörk og Vivianne Miedema sem skoraði 4 mörk. Auk þess lagði Martens upp tvö mörk fyrir hollenska liðið á leið þess að sínum fyrsta Evrópumeistaratitli.

Martens er 24 ára gömul, fædd 16. desember 1992, og lék fyrst með hollensku félögunum Heerenveen og Venlo en hefur frá 2011 spilað utan Hollands. Fyrst með Standard Liege í Belgíu, þá með Duisburg í Þýskalandi, Gautaborg í Svíþjóð og Rosengård í Svíþjóð, en áður en EM hófst gekk hún til liðs við spænsku meistarana Barcelona og leikur með þeim á komandi keppnistímabili.

Martens hefur áður vakið athygli á stórum mótum en hún varð markahæsti leikmaður Evrópukeppni U19 ára landsliða árið 2015. Hún var í hollenska liðinu sem komst í fyrsta skipti á HM árið 2015, í Kanada, og skoraði þá fyrsta mark Hollands í lokakeppni HM.

Hún hefur verið í lykilhlutverki í landsliði Hollands undanfarin ár og hefur nú leikið 80 landsleiki og skorað í þeim 33 mörk.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin