Líðan Eriksens stöðug og hann vakandi á spítala

Sabrina Kvist Jensen, eiginkona Christians Eriksens, kom á völlinn og …
Sabrina Kvist Jensen, eiginkona Christians Eriksens, kom á völlinn og er hér hugguð af Simon Kjær, fyrirliða Danmerkur. AFP

Christian Eriksen, leikmanni danska landsliðsins í knattspyrnu, var komið í skyndi á spítala í Kaupmannahöfn í kjölfar þess að hann hneig niður í leik Danmerkur og Finnlands á Parken í dag. Líðan hans er stöðug.

Þetta kemur fram í stuttri uppfærslu á twitteraðgangi UEFA.

Seint í fyrri hálfleik hneig Eriksen niður og var strax ljóst að um alvarlegt atvik væri að ræða. Læknalið var tafarlaust kallað til og hóf strax endurlífgunartilraunir.

Eftir að hafa hlúð að Eriksen í um stundarfjórðung var hann borinn af velli og fluttur á ríkisspítalann í Kaupmannahöfn.

Leiknum var aflýst í kjölfar þess að Eriksen var borinn af velli og er von á yfirlýsingu frá UEFA um klukkan 18 í kvöld varðandi það hvenær eða hvort leik Danmerkur og Finnlands verði haldið áfram.

Uppfært kl. 17:38: Danska knattspyrnusambandið greinir frá því á twitteraðgangi sínum að Eriksen sé vakandi á spítalanum og bíði nú frekari skoðunar.

Christian Eriksen í leiknum í dag.
Christian Eriksen í leiknum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert