Brotnaði á tveimur stöðum í augntóft

Timothy Castagne fer meiddur af velli í gærkvöldi.
Timothy Castagne fer meiddur af velli í gærkvöldi. AFP

Timothy Castagne, leikmaður Leicester City og belgíska landsliðsins í knattspyrnu, brotnaði á tveimur stöðum í augntóft í leik Belgíu gegn Rússlandi á Evrópumótinu í gær og þarf á skurðaðgerð að halda. Þátttöku hans á mótinu er því lokið.

Castagne lenti í harkalegu samstuði við Daler Kuzyaev eftir tæplega hálftíma leik. Báðir þurftu þeir að fara af velli en Castagne fór verr út úr samstuðinu.

Búist er við því að bakvörðurinn knái gangist undir aðgerðina í Belgíu í dag eða á morgun.

Belgía vann leikinn í gærkvöldi örugglega, 3:0, með tveimur mörkum frá Romelu Lukaku og einu frá Thomas Meunier, sem kom einmitt inn á fyrir Castagne.

mbl.is