Greindist með veiruna og missir af EM

Joao Cancelo missir af EM eftir að hafa greinst með …
Joao Cancelo missir af EM eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. AFP

Knattspyrnumaðurinn Joao Cancelo, bakvörður Manchester City og portúgalska landsliðsins, hefur greinst með kórónuveiruna. Af þeim sökum mun hann ekki leika með Portúgal á Evrópumótinu.

Diogo Dalot, leikmaður Manchester United sem var á láni hjá AC Milan á nýafstöðnu tímabili, hefur verið kallaður inn í leikmannahóp Portúgals í stað Cancelo.

Allir aðrir leikmenn ásamt starfsliði portúgalska hópsins greindust neikvæðir við skimun.

Cancelo, sem er án einkenna, fór strax í einangrun en missir sem áður segir af EM.

Fyrsti leikur Portúgals í F-riðlinum fer fram í Búdapest gegn heimamönnum í Ungverjalandi næstkomandi þriðjudag.

mbl.is