Enska knattspyrnusambandið svarar Söru Björk

Sara Björk Gunnarsdóttir á æfingu með Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir á æfingu með Lyon. mbl.is/Hallur Már

Mark Bullingham, framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, hefur svarað gagnrýni Söru Bjarkar Gunnarsdóttur landsliðskonu sem snýr að því að leikvangar á EM 2022 á Englandi taki sumir hverjir allt of fáa áhorfendur í sæti. Sagði hann erfitt hafa reynst að fá borgir og leikvelli ýmissa félaga til þess að halda leiki.

„Vellirnir voru ákveðnir árið 2019. Sannleikurinn er sá að við fórum í gegnum alla helstu velli og borgir landsins og það voru mjög fári sem buðu sig fram og sögðust vilja taka þátt í að skipuleggja mótið,“ sagði Bullingham í samtali við ESPN.

Stærstu leikvangarnir sem munu halda leiki á EM sem hefst í næsta mánuði eru Wembley í Lundúnum, sem tekur 90.000 manns, en þar fer úrslitaleikur mótsins fram þann 31. júlí.

Sá næststærsti, Old Trafford í Manchester, tekur 75.000 manns og fer upphafsleikur EM fram þar þegar gestgjafar Englands mæta Austurríki þann 6. júlí næstkomandi.

Aðrir leikvangar eru mun minni, þar á meðal Akademíuvöllur Manchester City, sem tekur aðeins 4.700 manns í sæti.

Tveir af þremur leikjum íslenska kvennalandsliðsins í D-riðlinum fara fram á honum og sagði Sara Björk í samtali við hlaðvarpsþátt sænska knattspyrnumiðilsins Fotbollskanalen í apríl síðastliðnum að það væri vandræðalegt að bjóða upp á svona litla velli á stórmóti.

Bullingham sagði ekki hafa verið hlaupið að því að fá félög og borgir til þess að samþykkja að halda leiki á mótinu.

„Við þurftum að sannfæra nokkur félög og borgir um að halda leiki þannig að við erum í raun ánægð með að við höfum komist á þann stað sem við erum á.

Við teljum okkur hafa nokkra frábæra leikvellir, en ef fólk heldur að menn hafi beðið í röðum eftir því að halda leiki þá var það ekki raunin,“ sagði hann einnig við ESPN.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 28. MARS

Útsláttarkeppnin