„Ótrúlega ánægð að fara á EM með sigur“

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna marki Sveindísar Jane Jónsdóttur í dag.
Leikmenn íslenska landsliðsins fagna marki Sveindísar Jane Jónsdóttur í dag. Ljósmynd/KSÍ/Adam Ciereszko

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var ánægð með 3:1-sigurinn á Póllandi í vináttulandsleik ytra í dag enda þýðir hann að Ísland fer með sigur í farteskinu á EM 2022, sem hefst í næsta mánuði.

„Ég er fyrst og fremst ótrúlega ánægð með að fara inn á EM með sigur. Við sýndum gott hugarfar. Við lendum undir í fyrri hálfleik og erum í smá brasi og fundum það kannski svolítið að það væri svolítið langt síðan margar af okkur höfðu spilað alvöruleik.

En svo í seinni hálfleik fannst mér við bara miklu betra lið. Við náum að tengja fleiri sendingar, skapa okkur fín færi og klárum þetta sannfærandi,“ sagði Glódís Perla í samtali við KSÍ eftir leik.

Spurð hvort henni hafi þótt leikurinn kaflaskiptur sagði Glódís Perla:

„Mér fannst þær ekki vera að skapa sér neitt mikið í fyrri hálfleik heldur en kannski áttu þær fyrri hálfleikinn og við þann seinni. Mér fannst við klára færin okkar fínt í seinni hálfleik og er bara ánægð með þetta.“

Hvað tekur íslenska liðið með sér úr þessum leik?

„Muninn á okkur þegar við náum að tengja fleiri sendingar, halda í boltann, færa hann á milli kanta og skapa okkur færi í seinni hálfleik. Á sama tíma erum við hærra í hápressunni, náum að vinna boltann og skorum þannig.

Við þurfum að taka þetta með okkur, þora að vera hugrakkar. Að standa ofarlega og spila hápressuna af því að það gerir okkur auðveldara fyrir að skora mörk ef við vinnum boltann ofar á vellinum,“ sagði hún.

Næst taka við æfingabúðir í Þýskalandi á kunnuglegum slóðum fyrir Glódísi Perlu, leikmann Bayern München.

„Mér líst bara vel á það. Fara til München, hálfpartinn heim aftur, að æfa þar. Það verður flott og það er alltaf gaman með stelpunum,“ sagði hún að lokum í samtali við KSÍ.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 18. APRÍL

Útsláttarkeppnin