Stigu upp og sýndu sitt rétta andlit í síðari hálfleik

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, kvaðst ánægður með síðari hálfleikinn í 3:1-sigri liðsins á Póllandi í vináttulandsleik ytra í dag.

„Ég er mjög sáttur við seinni hálfleikinn. Hann var góður heilt yfir fannst mér. Við vorum áræðin í leiknum þá og þorðum að stíga hátt á þær og gerðum það vel, lokuðum vel á þær.

Auðvitað fengu þær alveg færi, eða hættulega möguleika á skapa sér færi, en seinni hálfleikurinn var heilt yfir flottur.

Í fyrri hálfleik byrjuðum við ágætlega en svo kom kafli sem var erfiður hjá okkur, við vorum að erfiða svolítið mikið. En það jákvæða við það var að við stígum upp í seinni hálfleik og gerum það vel,“ sagði Þorsteinn í samtali við KSÍ eftir leik.

Pólland leiddi með einu marki í leikhléi en Ísland svaraði með þremur mörkum í síðari hálfleik. Hvað sagði Þorsteinn við leikmennina í hálfleik?

„Við fórum bara rólega yfir einhverja taktíska hluti. Það voru ákveðnar lausnir sem við vildum koma með, ákveðnir hlutir sem við vildum gera betur.

Margt af því heppnaðist en svo stigu leikmenn raunverulega upp og sýndu sitt rétta andlit í seinni hálfleik,“ svaraði hann.

Spurður hvað tæki nú við í undirbúningi liðsins fyrir EM 2022 sem hefst á Englandi í næsta mánuði sagði Þorsteinn að lokum:

„Það er bara endurheimt á morgun og rólegur dagur þá. Síðan förum við yfir til Þýskalands að undirbúa okkur frekar, æfa vel, slípa okkur ennþá betur saman og gera okkur klár fyrir EM.“

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 24. APRÍL

Útsláttarkeppnin