Hafa saknað drottningarinnar í eldhúsinu

Glódís Perla Viggósdóttir á æfingu Íslands í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir á æfingu Íslands í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er spennt að fara á æfingu,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, varnarmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á fyrstu æfingu íslenska liðsins í Crewe á Englandi í dag.

Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik sínum í D-riðli Evrópumóts kvenna í Manchester á sunnudaginn en liðið lenti á flugvellinum í Manchester síðdegis í gær.

„Við nýttum tímann mjög vel í Þýskalandi og það var líka ótrúlega gaman að heimsækja höfuðstöðvar Puma og sjá með berum augum hversu stórt batterí þetta er.

Þetta var líka mjög góð ferð fyrir liðið. Það var gott að komast aðeins burt frá Íslandi og gott að fá að vera aðeins við sjálfar þar sem við vorum fyrst og fremst að einblína á okkur,“ sagði Glódís Perla.

Það var stuð í reitabolta á æfingu íslenska liðsins.
Það var stuð í reitabolta á æfingu íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frábærar móttökur í Manchester

Glódís er á meðal reynslumestu leikmannanna í íslenska hópnum en þetta er hennar þriðja stórmót.

„Maður er að reyna ofhugsa þetta ekki of mikið einhvernvegin. Það var tekið mjög vel á móti okkur á flugvellinum og þaðan lá leiðin upp á hótel. Starfsfólk KSÍ var búið að skreyta og gera allt ótrúlega fínt þar líka sem var frábært.

Við vorum svo mjög spenntar að hitta kokkinn okkar, hana Ylfu Helgadóttur, enda erum við búnar að sakna hennar mjög mikið. Hún er klárlega drottningin í eldhúsinu.“

Ómar Smárason, Glódís Perla Viggósdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í …
Ómar Smárason, Glódís Perla Viggósdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í Crewe í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markmiðið að vinna leik

Íslenska liðið er í erfiðum riðli með Belgíu, Frakklandi og Ítalíu.

„Markmiðið er að vinna leik á mótinu. Ef okkur tekst það getum við svo byggt ofan á það. Þú þarft að vinna leik til þess að fara upp úr riðlinum og það er þess vegna markmið númer eitt eins og staðan er núna.

Leikurinn gegn Belgunum leggst mjög vel í mig. Það er margt líkt með Belgíu og Póllandi og það var þess vegna gott að fá þennan æfingaleik gegn Pólverjum um daginn. Það væri frábært að byrja mótið á sigri en þessi fyrsti leikur er ekkert mikilvægara en aðrir leikir í riðlinum,“ sagði Glódís í samtali við mbl.is.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 19. APRÍL

Útsláttarkeppnin