England vann nauman 1:0-sigur á Serbíu í C-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu í Gelsenkirchen í Þýskalandi í kvöld.
England er í efsta sæti riðilsins með þrjú stig en á eftir koma Slóvenía og Danmörk með eitt stig. Serbía er síðan í neðsta sæti án stiga.
England tók forystuna á 13. mínútu með marki frá Jude Bellingham. Hægri kantmaður Englendinga Bukayo Saka kom með fyrirgjöf á miðjan vítateiginn þar sem Bellingham mætti af miklum krafti og stangaði boltann í netið, 1:0.
Kyle Walker fékk ágætis færi um miðbik fyrri hálfleiks til að tvöfalda forystu Englands en skot hans fór framhjá. Staðan 1:0, Englandi í vil í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn var afar rólegur, líkt og sá fyrri. Liðin skiptust á að vera með boltann og var lítið um færi.
Harry Kane var ekki langt frá því að koma Englandi í 2:0 þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Varamaðurinn Jarrod Bowen átti góða fyrirgjöf sem rataði á Kane á fjærstönginni sem náði föstum skalla en Predrag Rajkovic varði í slána.
Serbía var nálægt því að jafna þegar Dusan Vlahovic, leikmaður Juventus, átti hörku skot rétt fyrir utan teig en Jordan Pickford varði glæsilega. Lítið gerðist í kjölfarið og sigldu Englendingar sigrinum heim nokkuð örugglega. Lokaniðurstöður, 1:0 sigur Englands.
Byrjunarliðin:
Serbía: (3-5-2)
Mark: Predrag Rajkovic.
Vörn: Milos Veljkovic, Nikola Milenkovic, Strahinja Pavlovic.
Miðja: Andrija Zivkovic (Veljko Birmancevic 74.), Sasa Lukic (Dusan Tadic 61.), Sergej Milinkovic-Savic, Nemanja Gudelj (Ivan Ilic 46.), Filip Kostic (Filip Mladenovic 44.).
Sókn: Aleksandar Mitrovic (Luka Jovic 61.), Dusan Vlahovic.
England: (4-3-3)
Mark: Jordan Pickford.
Vörn: Kyle Walker, John Stones, March Guéhi, Kieran Trippier.
Miðja: Trent Alexander-Arnold (Conor Gallagher 69.), Jude Bellingham (Kobbie Mainoo 86.), Declan Rice.
Sókn: Bukayo Saka (Jarrod Bowen 76.), Harry Kane, Phil Foden.