Slóvenar og Danir gerðu fyrsta jafntefli mótsins

Christian Eriksen fagnar marki sínu.
Christian Eriksen fagnar marki sínu. AFP/Damien Meyer

Slóvenía og Danmörk skildu jöfn, 1:1, í hörkuleik í C-riðli EM 2024 í knattspyrnu karla í Stuttgart í Þýskalandi í dag. Er um fyrsta jafntefli mótsins að ræða til þessa.

Liðin eru í riðli með Serbíu og Englandi sem mætast í kvöld.

Danir byrjuðu leikinn töluvert betur og einokuðu boltann, án þess þó að skapa sér nein færi.

Fyrsta almennilega færi leiksins kom á 16. mínútu þegar Benjamin Sesko, sóknarmaður Slóveníu, átti frábært skot rétt fyrir utan vítateig sem fór naumlega framhjá markinu.

Vanja Drkusic með Rasmus Höjlund í strangri gæslu.
Vanja Drkusic með Rasmus Höjlund í strangri gæslu. AFP/Thomas Kienzle

Glæsimark Eriksens

Mínútu síðar kom Christian Eriksen Danmörku í forystu.

Alexander Bah tók þá innkast á hægri kantinum með hraði, fann þar Jonas Wind í vítateignum sem átti glæsilega hælspyrnu beint á Eriksen, sem var kominn í gott hlaup hægra megin við markteiginn, tók vel við boltanum með bringunni og kláraði svo með hnitmiðuðu skoti niður í bláhornið.

Á 21. mínútu barst boltinn til Erik Jenza fyrir utan vítateig eftir hornspyrnu Slóvena, hann þrumaði að marki og stefndi boltinn að marki áður en hann fór af varnarmanni Dana og aftur fyrir endamörk.

Sex mínútum síðar voru Slóvenar nálægt því að skora sjálfsmark. Eriksen átti þá fasta sendingu fyrir markið, Sesko hreinsaði í samherja sinn Jan Mlakar þaðan sem boltinn fór rétt framhjá.

Eriksen tók hornspyrnuna frá vinstri í kjölfarið, fann Jannik Vestergaard á fjærstönginni en skalli hans fór nokkuð framhjá.

Eriksen gerði sig enn gildandi á 43. mínútu þegar hann fékk sendingu frá Wind út í teiginn en vinstri fótar skot hans úr góðri stöðu fór yfir markið.

Ekki urðu færin fleiri í fyrri hálfleiknum og staðan í leikhléi var því 1:0, Danmörku í vil.

Jan Mlakar bendir hingað og Pierre-Emile Höjbjerg þangað.
Jan Mlakar bendir hingað og Pierre-Emile Höjbjerg þangað. AFP/Fabrice Coffrini

Vildu fá vítaspyrnu

Snemma í síðari hálfleik vildi Slóvenía fá dæmda vítaspyrnu þegar Joachim Andersen virtist sparka Andraz Sporar niður innan vítateigs.

VAR athugaði málið en fannst ekki ástæða til að aðhafast neitt frekar.

Á 54. mínútu tók títtnefndur Eriksen hættulega aukaspyrnu af vinstri kantinum sem fór af Andreas Christensen og þaðan af varnarmanni Slóveníu og naumlega framhjá markinu.

Ellefu mínútum síðar komust Danir nálægt því að tvöfalda forystu sína. Victor Kristiansen átti þá sendingu þvert fyrir markið, fann þar Rasmus Höjlund nánast inni í markinu en setti boltann beint í Jan Oblak í marki Slóveníu sem varði vel.

Bah átti svo þrumuskot í kjölfarið sem fór í varnarmann.

Rasmus Höjlund klúðrar sannkölluðu dauðafæri.
Rasmus Höjlund klúðrar sannkölluðu dauðafæri. AFP/Miguel Medina

Orrahríð að marki Dana

Í næstu sókn átti Janza góða fyrirgjöf af vinstri kantinum á Adam Gnezda Cerin sem var einn fyrir miðjum vítateignum en skallaði framhjá markinu.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok gerðu Slóvenar sig líklega til að jafna metin.

Fyrst átti Janza fyrirgjöf úr aukaspyrnu af vinstri kanti sem Sporar teygði sig í á markteignum en skotið fór rétt framhjá.

Örskömmu síðar átti Sesko stórkostlegt skot fyrir utan vítateig sem small í stönginni.

Slóvenum tókst hins vegar loks á 77. mínútu að jafna metin þegar Janza fékk boltann fyrir utan vítateig í kjölfar hornspyrnu, tók viðstöðulaust þrumuskot sem fór af Morten Hjulmand og í netið.

Fjórum mínutum síðar slapp Sporar í gegn og tók skotið úr þröngu færi hægra megin í vítateignum en Kasper Schmeichel varði í hliðarnetið.

Hvorugt lið fékk opið færi eftir þetta og sættust því að lokum á jafnan hlut.

Slóvenar fagna jöfnunarmarki Eriks Janza.
Slóvenar fagna jöfnunarmarki Eriks Janza. AFP/Damien Meyer

Byrjunarliðin:

Slóvenía (4-4-2):

Mark: Jan Oblak.

Vörn: Zan Karnicnik, Vanja Drkusic, Jaka Bijol, Erik Janza.

Miðja: Petar Stojanovic (Benjamin Verbic 67.), Adam Gnezda Cerin, Timi Elsnik (Jon Gorenc Stankovic 75.), Jan Mlakar (Zan Celar 75.).

Sókn: Andraz Sporar (Jasmin Kurtic 90.), Benjamin Sesko (David Brekalo 90.).

Danmörk (3-5-2):

Mark: Kasper Schmeichel.

Vörn: Andreas Christensen, Joachim Andersen, Jannik Vestergaard.

Miðja: Alexander Bah, Morten Hjulmand (Thomas Delaney 89.), Pierre-Emile Höjbjerg (Christian Nörgaard 83.), Victor Kristiansen (Joakim Mæhle 78.).

Sókn: Jonas Wind (Kasper Dolberg 83.), Rasmus Höjlund (Yussuf Poulsen 83.).

Danir láta sig dreyma um annan Evrópumeistaratitil.
Danir láta sig dreyma um annan Evrópumeistaratitil. AFP/Thomas Kienzle

Fréttin var uppfærð eftir gangi mála í leiknum.

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin