Torsóttur sigur Hollands

Holland hafði betur gegn Póllandi, 2:1, þegar liðin mættust í fyrsta leiknum í D-riðli Evrópumóts karla í knattspyrnu í Hamborg í Þýskalandi.

Liðin eru í riðli með Austurríki og Frakklandi sem mætast annað kvöld.

Adam Buksa kom Póllandi yfir eftir stundarfjórðung með glæsilegu skallamarki. Hann stökk hærra en varnarturnar Hollands og stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu sem Piotr Zielinski tók. 

Adam Buksa fagnar markinu sem hann skoraði í dag.
Adam Buksa fagnar markinu sem hann skoraði í dag. AFP/John McDougall

Eftir markið settu Hollendingar mikla pressu á Pólverjana og sóttu grimmt. Þeir jöfnuðu svo leikinn á 29. mínútu með smá heppni og marki frá Liverpool-manninum Cody Gakpo. Hann tók fast skot sem fór í varnarmenn og breytti tvisvar um stefnu svo Wojciech Szczesny áttaði sig seint hvert boltinn stefndi, sem var á mitt markið og í netið.

Cody Gakpo fagnar jöfnunarmarkinu.
Cody Gakpo fagnar jöfnunarmarkinu. AFP/Odd Andersen

 Gakpo hefði getað skorað annað mark á 42. mínútu en negldi boltanum yfir af stuttu færi. Memphis Depay komst í gott færi á lokasekúndu fyrri hálfleiks en skotið fór rétt framhjá. Staðan því 1:1 í hálfleik.

Memphis Depay klúðraði fínu færi undir lok fyrri hálfleiks.
Memphis Depay klúðraði fínu færi undir lok fyrri hálfleiks. AFP/Gabriel Bouys

 Holland komst svo yfir á 83. mínútu með marki frá Wout Weghorst, aðeins tveimur mínútum eftir að hann kom inn á, eftir frábæra sendingu í gegn frá Nathan Aké.

Á 89. mínútu átti  Bart Verbruggen mikilvæga vörslu eftir skot frá Karol Swiderski af stuttu færi. Verbruggen varði boltann út í teiginn og Jakub Piotrowski mætti á frákastið en skaut í hliðarnetið.

Byrjunarliðin:

Pólland: (3-4-3)

Mark: Wojciech Szczesny

Vörn: Jan Bednarek, Bartosz Salamon, Jakub Kiwior

Miðja: Przemyslaw Frankowski, Piotr Zielinski, Taras Romanczuk (Bartosz Slisz 55.), Nicola Zalewski

Sókn: Kacper Urbanski (Karol Swiderski 55.), Adam Buksa, Sebastian Szymanski (Jakub Moder 46.)

Holland (4-3-3)

Mark: Bart Verbruggen

Vörn:  Nathan Aké (Micky van de Ven 87.), Virgil van Dijk, Stefan de Vrij, Danzel Dumfries

Miðja: Joey Veerman (Georginio Wijnaldum 62.), Tijjani Reijnders, Jerdy Schouten

Sókn: Cody Gakpo (Jeremie Frimpong 81.), Memphis Depay (Wout Weghorst 81.), Xavi Simons (Donyell Malen 62.)

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin