Jude Bellingham hrósaði liðsfélaga sínum Trent Alexander-Arnold í hástert eftir 1:0-sigur Englands á Serbíu á EM 2024 í knattspyrnu á sunnudagskvöld.
Nokkrir enskir sparkspekingar gagnrýndu Alexander-Arnold fyrir frammistöðu sína á miðju Englands, en hann leikur venjulega í stöðu hægri bakvarðar.
„Hann er frábær. Hann gerir mér svo auðvelt fyrir því hann getur stjórnað leiknum svo vel varnarlega í þessari stöðu.
Ég veit að fólk lætur út úr sér alls konar kjaftæði en hann er svo aggressívur þegar sett er pressa á hann er hann snýr baki í markið okkar,“ sagði Bellingham í samtali við ITV Sport eftir leikinn.
Sjálfur skoraði hann sigurmark Englands með þrumuskalla snemma leiks.
„Það hjálpaði mér mikið því það þýddi að ég fékk mikið andrými. Ég tel að við skiljum hvor annan vel þegar við erum með boltann.
Hann vill spila með jákvæðum hætti, hann leitar fram á við öllum stundum,“ sagði Bellingham einnig um Alexander-Arnold.