Knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé, fyrirliði Frakklands, þarf ekki á skurðaðgerð að halda eftir að hafa nefbrotnað í leik liðsins gegn Austurríki á EM 2024 í Þýskalandi í gær.
Í gærkvöldi greindi Knattspyrnusamband Frakklands frá því að Mbappé þyrfti að gangast undir aðgerð.
Síðar um kvöldið greindi Philippe Diallo, forseti sambandsins, hins vegar frá því í samtali við ESPN að það hafi ekki reynst rétt, sóknarmaðurinn öflugi myndi ekki fara í aðgerð.
Í tilkynningu frá franska sambandinu sem það birti á samfélagsmiðlum í nótt segir:
„Mbappé mun hljóta aðhlynningu næstu daga en gengst ekki undir aðgerð í nánustu framtíð. Gríma verður útbúin fyrir hann svo leikmaður númer tíu hjá franska landsliðinu geti undirbúið endurkomu sína í keppninni eftir tiltekinn meðhöndlunartíma.“
Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort Mbappé geti tekið þátt í næsta leik Frakklands í D-riðlinum gegn Hollandi næstkomandi föstudagskvöld.