Ótrúleg dramatík er Albanía krækti í stig

Klaus Gjasula fagnar dramatísku jöfnunarmarki sínu í dag.
Klaus Gjasula fagnar dramatísku jöfnunarmarki sínu í dag. AFP/Gabriel Bouys

Króatía og Albanía gerðu jafntefli, 2:2, í 2. umferð B-riðils EM 2024 í knattspyrnu karla í Hamborg í Þýskalandi í dag. Albanir jöfnuðu metin á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Bæði lið eru nú með eitt stig í riðlinum.

Qazim Laci kom Albaníu óvænt yfir á 11. mínútu leiksins með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Jasir Asani. 

Þá stangaði hann boltann á nærstöngina þar sem Dominik Livakovic markvörður Króata var í boltanum og hefði átt að gera betur.

Qazim Laci fagnar marki sínu.
Qazim Laci fagnar marki sínu. AFP/John Macdougall

Eftir rúmlega hálftíma leik missti Luka Modric boltann á hættulegum stað, hann barst til Kristjan Asllani sem tók viðstöðulaust skot en Livakovic varði afar vel í markinu.

Undir lok fyrri hálfleiks komst Albanía aftur nálægt því að tvöfalda forystuna. Rey Manaj fékk þá fyrirgjöf af hægri kantinum, skutlaði sér fram til að skalla boltann en Livakovic var aftur vel á verði og varði til hliðar.

Staðan því 1:0 í hálfleik, Albaníu í vil.

Króatar tóku við sér í síðari hálfleik

Í byrjun síðari hálfleiks, á 50. mínútu, fékk Króatía loks sitt fyrsta almennilega færi í leiknum.

Það fékk varamaðurinn Luka Sucic hægra megin í vítateignum er hann skaut að marki en Thomas Strakosha varði frá honum.

Skömmu síðar gaf Ivan Perisic fyrir af vinstri kantinum, varamaðurinn Mario Pasalic náði skallanum en hann fór yfir markið.

Króatar hertu enn tökin og lét Mateo Kovacic vaða fyrir utan vítateig en skotið fór af varnarmanni og hafnaði svo í fangi Strakosha.

Fjórum mínútum síðar fékk Petkovic skallafæri eftir fyrirgjöf af hægri kantinum en skallinn fór af varnarmanni Albaníu og yfir markið.

Upp úr hornspyrnunni fékk Josip Sutalo frían skalla á nærstönginni en skallaði framhjá úr dauðafæri.

Perisic lét svo vaða fyrir utan vítateig eftir klukkutíma leik en skotið fór af varnarmanni og Strakosha varði.

Asllani reyndi svo skot fyrir utan vítateig á 64. mínútu en það fór beint á Livakovic.

Á 70. mínútu fékk Pasalic annað skallafæri eftir fyrirgjöf Perisic frá vinstri en aftur fór skallinn yfir markið.

Sneru taflinu við á tveimur mínútum

Á 74. mínútu jöfnuðu Króatar loks metin. Varamaðurinn Ante Budimir kom boltanum þá til Andrej Kramaric vinstra megin í vítateignum, hann fór illa með varnarmann Albaníu og lagði boltann á milli fóta annars varnarmanns og niður í nærhornið.

Andrej Kramaric fagnar marki sínu í dag.
Andrej Kramaric fagnar marki sínu í dag. AFP/Gabriel Bouys

Mínútu síðar slapp Pasalic einn í gegn, reyndi að fara framhjá Strakosha en tókst ekki og albanski markvörðurinn handsamaði boltann í annarri tilraun.

Örskömmu síðar, á 76. mínútu, voru Króatar komnir yfir. Budimir gerði þá afar vel í að komast upp að endamörkum inni í markteignum, hann lagði boltann út á Sucic sem tók skot sem fór í fyrirliðann Berat Djimsiti, þaðan sem boltinn fór í varamanninn Klaus Gjasula og í netið, sjálfsmark.

Á 80. mínútu tók Budimir gott skot við vítateigslínuna en Strakosha varði vel.

Þremur mínútum fyrir leikslok átti Modric svo hörkuskot fyrir utan vítateig en það fór framhjá markinu.

Dramatískt jöfnunarmark

Einni mínútu fyrir leikslok átti varamaðurinn Arber Hoxha glæsilegan sprettt og gott skot rétt fyrir utan vítateig en Livakovic varði vel til hliðar áður en rangstaða var dæmd á varamanninn Mirlind Daku sem var mættur í frákastið.

Daku fékk sannkallað dauðafæri til þess að jafna metin á þriðju mínútu uppbótartíma þegar boltinn datt fyrir hann í vítateignum eftir þunga sókn en skot hans fór í varnarmann.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma tókst Albönum að jafna metin. Þar var að verki Gjasula sem bætti upp fyrir mistökin er hann setti boltann í eigið mark.

Boltinn barst þá til hans í miðjan vítateiginn eftir fyrirgjöf Mario Mitaj sem hafði viðkomu í varnarmanni Króatíu áður en Gjasula lagði boltann niður í hornið.

Á áttundu mínútu uppbótartíma átti Kovacic hættulegt skot við vítateigslínuna en Strakosha varði og niðurstaðan hádramatískt jafntefli.

Byrjunarliðin:

Króatía (4-3-3):

Mark: Dominik Livakovic.

Vörn: Josip Juranovic, Josip Sutalo, Josko Gvardiol, Ivan Perisic (Borna Sosa 84.).

Miðja: Luka Modric, Marcelo Brozovic (Mario Pasalic 46.), Mateo Kovacic.

Sókn: Lovro Majer (Luka Sucic 46.), Bruno Petkovic (Ante Budimir 69.), Andrej Kramaric (Martin Badurina 84.).

Albanía (4-5-1):

Mark: Thomas Strakosha.

Vörn: Elseid Hysaj, Arlind Ajeti, Berat Djimsiti, Mario Mitaj.

Miðja: Ylber Ramadani (Arber Hoxha 85.), Kristjan Asllani, Jasir Asani (Taulant Seferi 64.), Nedim Bajrami, Qazim Laci (Klaus Gjasula 72.).

Sókn: Rey Manaj (Mirlind Daku 85.).

Fréttin var uppfærð eftir því sem leiknum vatt fram.

Leikmenn Albaníu hita upp í Hamborg.
Leikmenn Albaníu hita upp í Hamborg. AFP/Ronny Hartmann
Króatíski áhrifavaldurinn og fyrirsætan Ivana Knoll er mætt á leik …
Króatíski áhrifavaldurinn og fyrirsætan Ivana Knoll er mætt á leik Króatíu og Albaníu. AFP/Christophe Simon
mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin