Dramatískt jafntefli í grannaslagnum

Luka Jovic jafnar metin í blálokin
Luka Jovic jafnar metin í blálokin AFP/ Thomas Kienzle

Slóvenar voru hársbreidd frá því að sigra nágranna sína frá Serbíu í C-riðli Evrópumótsins í fótbolta í dag. Varamaðurinn Luka Jovic jafnaði metin fyrir Serba á síðustu andartökum uppbótartíma.

Slóvenar gerðu jafntefli við Dani í fyrstu umferðinni, 1:1, en Serbar töpuðu 1:0 fyrir Englendingum. Danmörk og England mætast síðar í dag.

Serbneska knattspyrnusambandið hótaði því í morgun að draga sig úr keppni muni evrópska knattspyrnusambandið ekki taka á hegðun stuðningsmanna Króata og Albana sem sungu níðsöngva um Serba í leik þjóðanna í gær.

Slóvenar áttu fyrsta skot leiksins á fjórðu mínútu eftir mistök í vörn Serba en Adam Ceric hirti boltann af Sasa Lukic og lét vaða af 25 metra færi. Skotið var fast en beint á Predrag Rajkovic í marki Serba.

Slóvenar voru aftur á ferðinni skömmu síðar þegar Jan Mlakar komst í gott færi á áttundu mínutu eftir skalla Benjamin Sesko aftur fyrir vörn Serba en Rajkovic varði fast skot hans úr teignum.

Dusan Vlahovic átti góðan skalla úr teignum eftir fyrirgjöf á 27. mínútu en Jan Oblak var vel staðsettur og handsamaði boltann. Serbar höfðu átt góðan spilkafla í aðdragandanum en Slóvenar réðu lögum og lofum fyrstu tuttugu mínútur leiksins.

Aleksander Mitrovic var hársbreidd frá því að koma Serbum yfir eftir hornspyrnu Dusan Tadic á 31. mínútu en hann náði ekki að stýra boltanum í opið markið af fjærstönginni. Hornspyrna Tadic lenti í markteignum og skoppaði framhjá stönginni og aftur fyrir endamörk.

Dusan Tadic og Timi Elsnik berjast um boltann í upphafi …
Dusan Tadic og Timi Elsnik berjast um boltann í upphafi leiks AFP/DAMIEN MEYER

Á 38. mínútu fengu Slóvenar gullið tækfiæri til að komast yfir í leiknum. Timi Elsnik lék inn á teig Serba og skaut föstu skoti framhjá Rajkovic í markinu og í stöngina, boltinn barst til Sesko en hann náði ekki að setja boltann í netið úr dauðafæri.

Þremur mínútum síðar bjargaði Oblak Slóvenum þegar Mitrovic kom sér í frábært færi eftir fyrirgjöf af hægri kanti. Oblak var snöggur út úr markinu og lokaði vel á framherja Serba.

Staðan 0:0 að loknum stórskemmtilegum fyrri hálfleik.

Mitrovic var óheppinn að ná ekki skalla á markið í upphafi fyrri hálfleiks en Vanja Drkusic gerði vel og bægði skallanum yfir markið.

Benjamin Sesko átti frábært skot á 59. mínútu eftir skyndisókn Slóvena en Rakjovic varði meistaralega í marki Serba.

Zan Karnicnik kemur Slóvenum í 1:0
Zan Karnicnik kemur Slóvenum í 1:0 AFP/Thomas Kienzle

Zan Karnickic, hægri bakvörður Slóvena, kom sínum mönnum yfir á 68. mínútu. Karnicnik vann boltann á eigin vallarhelmingi og geystist fram völlinn áður en hann sendi boltann á Elsnik á vinstri kantinum. Karnicnik hélt hlaupinu áfram og var mættur á endann á fyrirgjöf Elsnik á fjærstöng. Bakverðinum kláraði af öryggi, einn og óvaldaður, og staðan 1:0.

Sergej Milinkovic-Savic var nálægt því að jafna metin þegar korter lifði leiks en skalli hans eftir aukaspyrnu fór af varnarmanni og framhjá úr góðu færi. Sjö mínútum síðar komst varamaðurinn Lazar Samardzic í ágætt skotfæri en lúmskt skot hans rann framhjá fjærstönginni.

Luka Jovic jafnaði metin fyrir Serba þegar örfáar sekúndur lifðu af uppbótartíma dómarans. Serbar fengu hornspyrnu og settu alla sína menn inn í teig. Jovic reis hæst og stangaði boltann í fjærhornið og hetjuleg barátta Slóvena rann út í sandinn.

Byrjunarliðin eru þannig skipuð:

Slóvenía (4-4-2):

Mark: Oblak
Vörn: Karnicnik, Drkusic, Bijol, Janza
Miðja: Stojanovic (Verbic 76.), Cerin, Elsnik (Brekalo 90.), Mlakar (Stankovic 63.)
Sókn: Sporar, Sesko (Vipotnik 76.)

Serbía (3-4-3):

Mark: Rajkovic
Vörn: Veljkovic, Milenkovic, Pavlovic
Miðja: Zivkovic (Birmancevic 82.), Ilic, Lukic (Milinkovic-Savic 63.), Mladenovic (Gacinovic 46.)
Sókn: Vlahovic (Jovic 63.), Tadic (Samardzic 82.), Mitrovic

Serbar voru nálægt því að komast yfir eftir hálftíma leik
Serbar voru nálægt því að komast yfir eftir hálftíma leik AFP/Thomas Kienzle
Zan Karnicnik fagnar
Zan Karnicnik fagnar AFP/ Fabrice Coffrini
mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin