Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, vonast til þess að náfrændi hennar Gylfi Þór Sigurðsson fái frí hjá félagsliði sínu Víkingi úr Reykjavík til þess að koma til Sviss og horfa á leik hjá landsliðinu á EM.
Karólína Lea, sem er 23 ára gömul, er lykilmaður í íslenska liðinu á meðan frændi hennar Gylfi Þór er lykilmaður hjá Víkingum og markahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi.
Gylfi Þór var í stúkunni þegar Ísland gerði jafntefi við Frakkland í lokakeppni EM á Englandi árið 2022 en leiknum lauk með jafntefli, 1:1, í Rotherham.
„Ég vona auðvitað að hann komi ef við komumst upp úr riðlinum,“ sagði Karólína þegar hún ræddi frænda sinn.
„Ég veit ekki alveg hvernig þetta er með Sölva [Geir Ottesen, þjálfara Víkinga], ég þarf að senda honum línu svo hann leyfi honum nú að mæta á einn leik allavega.
Við verðum eiginlega að fá hann aftur út,“ bætti Karólína við í samtali við mbl.is.