Frakkland vann góðan sigur á ríkjandi Evrópumeisturum Englands, 2:1, í D-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Zürich í Sviss í kvöld.
Frakkland er með þrjú stig, jafnmörg stig og Holland sem hafði betur gegn Wales, 3:0, í hinum leik riðilsins. Wales og England eru án stiga.
Marie-Antoinette Katoto kom Frökkum yfir á 36. mínútu eftir góðan undirbúning frá Delphine Cascarino. Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Sandy Baltimore forystuna eftir ótrúlega takta.
Staðan var því 2:0 fyrir Frakklandi í hálfleik.
Keira Walsh minnkaði muninn fyrir England á 87. mínútu. Boltinn datt fyrir Walsh rétt utan teigs sem skoraði með góðu skoti í hægra hornið.
England sótti stíft á lokamínútunum en án árangurs. Lokaniðurstaðan var því 2:1-sigur Frakklands.