Agla María Albertsdóttir er á sínu þriðja stórmóti með íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta, þrátt fyrir að vera einungis 25 ára gömul.
Hún var fyrst í leikmannahóp Íslands á stórmóti á EM í Hollandi árið 2017 þegar Freyr Alexandersson var með liðið.
Alls á hún að baki 62 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað fjögur mörk en hún er fyrirliði Breiðabliks i Bestu deildinni.
„Það var frábært að hitta mömmu og pabba, við höfðum það mjög huggulegt,“ sagði Agla María í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Thun í Sviss í gær.
„Ég er svo sem alltaf með þeim þannig að þetta var kannski meira hugsað fyrir þær sem búa erlendis sem voru mjög fegnar að hitta fjölskylduna sína en það er alltaf frábært að hitta mömmu og pabba," sagði Agla María.
Þú hvetur kannski mömmu þína til þess að hitta mig á stuðningsmannasvæðinu, ég er alltaf að reyna að ná henni í viðtal?
„Ég get alveg lofað þér því að það er ekki möguleiki að hún mæti í viðtal,“ bætti Agla María við og hló.