Pia Sundhage, þjálfari svissneska kvennalandsliðsins í fótbolta, á von á mjög erfiðum leik gegn Íslandi en liðin mætast í 2. umferð A-riðils Evrópumótsins í Bern í Sviss á morgun.
Bæði lið eru án stiga eftir 1. umferð riðlakeppninnar þar sem Ísland tapaði fyrir Finnlandi í Thun, 1:0, á meðan Sviss tapaði fyrir Noregi í Basel, 2:1.
Bæði lið þurfa því nauðsynlega sigri á að halda til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitum keppninnar.
„Þetta verður erfiður leikur,“ sagði Sundhage á blaðamannafundi í Bern í dag.
„Íslenska liðið er gott lið og þær eru mjög líkamlega sterkar. Ég er búin að segja það áður að við þurfum að varast föstu leikatriðin þeirra og skyndisóknirnar þeirra. Við erum vel undirbúnar og það eru allir með sín hlutverk á hreinu.
Þetta verður stríð og við erum undirbúnar undir það. Við erum tilbúnar í slaginn,“ bætti Sundhage við.