„Ég er ennþá að spila,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, styrktarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, á æfingu íslenska liðsins í Thun á fimmtudaginn.
Gunnhildur lagði landsliðsskóna á hilluna í júlí árið 2023 en hún gekk til liðs við kanadíska félagið Halifax Tides í febrúar á þessu ári.
Eiginkona Gunnhildar er markvörðurinn Erin Mcleod en hún gekk til liðs við kanadíska félagið í október á síðasta ári.
„Þegar ég skrifaði undir samninginn þá lét ég þá strax vita af því að landsliðið væri númer eitt hjá mér og félagið hefur stutt þétt við bakið á mér,“ sagði Gunnhildur.
„Konan mín er frá Kanada og hún vildi ljúka ferlinum í heimalandinu sínu. Hún hélt að hún gæti aldrei lokið ferlinum í Kanada en deildin er á sínu fyrsta ári.
Ég vildi fara út og styðja við bakið á henni og ég hugsaði líka með mér að ég gæti sjálf komið mér í form, eitthvað sem myndi nýtast mér vel þegar ég aðstoða aðra íþróttamenn við það að koma til baka eftir barnsburð,“ sagði Gunnhildur sem eignaðist sitt fyrsta barn fyrir átta mánuðum síðan.