Búið spil hjá Íslandi á Evrópumótinu

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er úr leik á Evrópumótinu 2025 eftir tap gegn Sviss í 2. umferð A-riðils keppninnar á Stadion Wankdorf í Bern í Sviss í kvöld.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Sviss en staðan var markalaus að fyrri hálfleiknum loknum.

Tapið þýðir að Ísland er úr leik á Evrópumótinu í ár en liðið er án stiga eftir töp gegn Finnlandi og Sviss og þá hefur íslenska liðið ekki skorað mark í keppninni í ár.

Liðið er í fjórða og neðsta sætinu án stiga, Noregur er í efsta sætinu með 6 stig og komið áfram í átta liða úrslitin. Sviss og Finnland eru svo jöfn að stigum með 3 stig hvort en Ísland mætir Noregi í lokaumferðinni í Thun á fimmtudaginn kemur.

Sláarskot á fyrstu mínútu

Leikurinn fór afar fjörlega af stað því strax á fyrstu mínútu átti Ingibjörg Sigurðardóttir þrumuskot í þverslá. Sveindís Jane Jónsdóttir tók þá innkast úti vinstra megin en varnarmenn Sviss skölluðu frá marki. Boltinn fór beint á Ingibjörgu sem átti viðstöðulaust skot, utarlega í teignum, en boltinn small í þverslánni.

Eftir fjöruga byrjun róaðist leikurinn talsvert og var mikið um stöðubaráttur inni á vellinum.

Það var ekki fyrr en á 29. mínútu sem það dró til tíðinda en Sviss fékk þá hornspyrnu úti  hægra megin. Smilla Vallotto tók spyrnuna sem fór beint á kollinn á Svenju Fölmli sem átti hnitmiðaðan skalla á markið. Glódís Perla Viggósdóttir reyndi að skalla frá sem varð til þess að boltinn breytti um stefnu og söng í netinu.

Svissneska liðið fagnaði en Marta Huerta, dómari leiksins fór í myndbandsskjáinn og dæmdi markið af þar sem Fölmli hindraði Karólínu Leu Vilhjálmsdóttir í hornspyrnunni og markið því réttilega dæmt af.

Svissneska liðið pressaði það íslenska ansi stíft á lokamínútum fyrri hálfleiks, án þess þó að ná að ógna markinu af einhverju viti og staðan því markalaus í hálfleik, 0:0.

Skotið ofan á slánna

Síðari hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri en strax á 47. mínútu var brotið á Öglu Maríu Albertsdóttir. Karólína Lea tók spyrnuna en boltinn fór í þverslánna ofanverða af 30 metra færi.

Iman Beney átti stórhættulegan skalla á 59. mínútu, utarlega í teignum, eftir frábæra fyrirgjöf Leilu Wandeler en Cecilía Rán Rúnarsdóttir var vandanum vaxin í markinu og varði vel.

Á 64. mínútu fékk íslenska liðið hornspyrnu vinstra megin sem Karólína Lea tók. Boltinn fór beint á kollinn á Dagnýju Brynjarsdóttir sem var frá í teignum en hún náði ekki að stýra boltanum á markið og skallinn fór framhjá.

Fjórum mínútum síðar átti Hafrún Rakel Halldórsdóttir, sem var nýkomin inn á sem varamaður, hörkuskot úr vítateig svissneska liðsins en boltinn fór framhjá.

Lokuðu leiknum á lokamínútunum

Sveindís Jane átti næstu marktilraun íslenska liðsins á 75. mínútu þegar hún fékk frítt skot, rétt utan teigs, en skotið var arfaslakt og fór hátt yfir markið.

Mínútu síðar dró til tíðinda þegar svissneska liðið vann boltann á miðsvæðinu. Boltinn barst á Sydney Schertenleib sem átti hnitmiðaða sendingu á Géraldine Reuteler sem slapp ein í gegn. Hún gerði engin mistök og lagði hann framhjá Cecilíu Rán og Sviss komið yfir, 1:0.

Leila Wandeler var nálægt því að tvöfalda forystu svissneska liðsins á 81. mínútu en skot hennar, rétt utan teigs, fór í þverslánna.

Alayah Pilagrim fékk sannkallað dauðafæri á 88. mínútu þegar hún fékk frítt skot í markteignum en Cecilía Rán var mjög vel staðsett og varði vel.

Pilagrim innsiglaði svo sigur svissneska liðsins í uppbótartíma eftir vel útfærða skyndisókn. Hún fékk boltann rétt utan teigs og átti hnitmiðað skot sem söng í hornina nær og Sviss fagnaði sigri.

Sviss 2:0 Ísland opna loka
90. mín. Alayah Pilgrim (Sviss) skorar 2:0 - Og þá er Ísland úr leik. Pilgrim tekur skot utan teigs sem fer af Harúnu Rakel og í netið.
mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin