„Ég var mjög bjartsýnn fyrir fyrsta leikinn og hann fór ekki alveg eins og við vildum þannig að þetta er úrslitaleikur í kvöld,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur í úrvalsdeild karla og eiginmaður landsliðskonunnar Natöshu Anasi, í samtali við mbl.is á stuðningsmannasvæði íslenska liðsins í Bern í Sviss í dag.
Ísland mætir Sviss í 2. umferð A-riðils Evrópumóts kvenna í fótbolta í Bern klukkan 19 að íslenskum tíma en bæði lið eru með bakið upp við vegg eftir tap í 1. umferð riðlakeppninnar.
„Það er mjög íslenskt að vera á leiðinni í úrslitaleik á völl sem er fullur af Svisslendingum. Það yrði gaman að kremja þeirra drauma og slá þá úr leik með sigri og halda þannig okkar draumum á lífi,“ sagði Rúnar Ingi.
Eins og áður sagði er Rúnar körfuboltaþjálfari og Natasha leikur með Val en þau eru búsett í Reykjanesbæ.
„Við erum mjög upptekin en við erum með rosalega gott net í kringum okkar sem hjálpar okkur að láta hlutina ganga upp. Lífið okkar snýst um íþróttir og við erum á öllum leikjum hjá hvort öðru. Börnin eru alltaf með og þekkja ekkert annað. Okkur finnst þetta gaman og á meðan þetta er gaman höldum við áfram.
Það eru forréttindi fyrir krakkana að fá að upplifa þetta en börnin okkar eru ekki rútínubörn. Frá því að dóttir okkar var tveggja ára hefur hún aldrei verið með fastan svefntíma eins og aðrir foreldrar berjast oft við en svona er þetta bara,“ sagði Rúnar meðal annars en nánar er rætt við hana í spilaranum hér fyrir ofan.