„Mér líður ótrúlega vel og vonandi getur liðið náð í úrslit,“ sagði Rob Holding, leikmaður Crystal Palace á Englandi og kærasti landsliðskonunnar Sveindísar Jane Jónsdóttur, í samtali við mbl.is á stuðningsmannasvæði íslenska liðsins í Bern í Sviss í dag.
Ísland mætir Sviss í 2. umferð A-riðils Evrópumóts kvenna í fótbolta í Bern klukkan 19 að íslenskum tíma en bæði lið eru með bakið upp við vegg eftir tap í 1. umferð riðlakeppninnar.
„Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur. Ég gæti trúað því að leikmennirnir séu frekar stressaðir, þannig er ég allavega. Um leið og maður stígur inn á völlinn minnkar stressið. Ég elskaði að spila hádegisleiki og ég var ekki mikið fyrir kvöldleiki því mér fannst erfiðast að bíða eftir leikjunum langt fram á kvöld. Ég ræddi við Sveindísi áðan og hún er spennt, vonandi skorar hún,“ sagði Rob.
Hann og Sveindís byrjuðu saman í október á síðasta ári en hvernig kynntust þau?
„Við kynntumst í gegnum Instagram. Við byrjuðum svo að hittast í kjölfarið og þá flaug maður yfir til hennar í landsleikjahléum og hún kom líka stundum til Englands. Það var áskorun og framundan er önnur áskorun þegar hún fer til Bandaríkjanna en vonandi getum við verið nálægt hvort öðru,“ sagði Rob meðal annars en nánar er rætt við hann í spilaranum hér fyrir ofan.