„Er þetta búið spil hjá Þorsteini Halldórssyni ef við töpum gegn Sviss?“ sagði blaðamaður í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, þegar rætt var um leik Sviss og Íslands í 2. umferð Evrópumóts kvenna í fótbolta sem fram er í Bern í kvöld.
Íslenska liðið er með bakið upp við vegg eftir tap gegn Finnlandi í Thun í 1. umferð riðlakeppninnar, líkt og Sviss sem tapaði fyrir Noregi, en bæði lið eru án stiga í neðstu sætum A-riðils og þurfa á sigrum að halda til þess að eiga möguleika á sæti í átta liða úrslitum EM.
Þorsteinn tók við liðinu í janúar árið 2021 og er á sínu öðru stórmóti með liðið en Ísland gerði þrjú jafntefli á fyrsta móti Þorsteins á Englandi árið 2022 og komst ekki áfram upp úr riðlinum.
„Já, ég held það,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson, blaðamaður á DV.is, þegar rætt var um framtíð landsliðsþjálfarans Þorsteins Halldórssonar.
„Þetta er hans síðasta verkefni ef við förum ekki upp úr þessum riðli. Það er mín tilfinning út frá því sem á undan er gengið. Hann reddaði sér með frábærum sumarglugga í fyrra, á móti Þýskalandi meðal annars.
Þá fékk hann þjóðina með sér aftur í lið en það má ekki gleymast að þjóðin var komin á bakið á honum fyrir þann tíma,“ sagði Helgi Fannar meðal annars.