Markvarslan veikasti hlekkur Íslands

Magnus Jondal (9) í leik Norðmanna og Dana á dögunum.
Magnus Jondal (9) í leik Norðmanna og Dana á dögunum. AFP

Geir Erlandsen, handboltasérfræðingur norska dagblaðsins Verdens Gang og fyrrverandi landsliðsmaður Noregs, segir að nú sé gráupplagt tækifæri fyrir Norðmenn til að vinna loksins sigur á Íslendingum, þegar liðin mætast í fyrstu umferð Evrópumótsins í Póllandi á morgun.

Verdens Gang segir í umfjöllun um leikinn að hann geti reynst algjör lykilleikur að velgengni á mótinu en með því að vinna hann eigi norska liðið möguleika á að ná sögulegum árangri í Póllandi.

Erlendsen segir að sigurmöguleikar Noregs felist í sóknarleiknum. „Þetta getur verið besta tækifærið til að sigra Ísland á stórmóti. Markvörðurinn er veiki hlekkurinn í liðinu og það er því afar mikilvægt fyrir  Noreg að spila góðan sóknarleik. Íslendingar eru afspyrnugóðir í hraðaupphlaupum og þeim mega þeir ekki ná.

Með góðri vörn, miklum hraða, og yfirveguðum sóknarleik gæti þetta orðið virkilega gott. Það er mikið í gangi. Við erum með unga og gráðuga, og ekki síst góða leikmenn. Við eigum marga leikmenn sem spila mikið í Danmörku og Þýskalandi og reynsluna höfum við í Bjarte Myrhol og Ole Erevik," segir Erlandsen.

Þá telur hann að norska liðið komi inní keppnina með mikið sjálfstraust eftir sigur og tap í tveimur jöfnum leikjum gegn heimsmeisturum Frakka, sigur gegn HM-silfurliði Katar og naum töp gegn Dönum og Íslendingum.

„Þeir hafa átt marga góða leiki og nú skiptir öllu að fá alla þættina til að ganga upp í einum og sama leiknum. Flestir leikir mótsins verða mjög jafnir og vinnast á einu marki til eða frá, og þá er mikilvægt að kunna að gera út um leiki eins og liðið gerði gegn Katar í lokaleiknum.

Menn mega ekki vanmeta gildi slíkra leikja. Norska liðið getur unnið alla á góðum degi. Þetta er svo lítill munur að það er erfitt að spá - þetta verður eins og ef kvennalandsliðið okkar myndi alltaf spila gegn Rúmeníu," sagði Erlandsen.

mbl.is