Fyrirliðinn með sigurmarkið gegn Noregi

Ísland byrjaði vel á Evrópumóti karla í handknattleik í Spodek-höllinni í Katowice í suðurhluta Póllands og vann Noregi 26:25. Guðjón Valur skoraði sigurmarkið úr horninu þegar 10 sekúndur voru eftir og Björgvin Páll innsiglaði sigurinn með því að verja glæsilega síðasta skot Norðmanna. 

Norðmenn voru betri í fyrri hálfleik en höfðu þó einungis eins marks forskot að honum loknum 11:10. Íslendingar fundu sig vel í sókninni í upphafi síðari hálfleiks og gekk betur að skora. Aron Pálmars komst þá í gang fyrir alvöru og skoraði þegar uppi var staðið 8 mörk og gaf fjölda stoðsendinga. Ísland náði þriggja marka forskoti 18:15 á 41. mínútu. Íslendingar voru yfir, einu til tveimur mörkum, þar til á lokamínútunni þegar Norðmenn jöfnuðu. Lokamínútan þróaðist eins og áður segir og Íslendingar fögnuðu innilega sætum sigri eftir háspennuleik. 

Aron Kristjánsson notaði alla leikmenn Íslands í dag nema markvörðinn Aron Rafn. Róbert Gunnars kom inn á í fyrsta skipti í leiknum í síðari hálfleik og var mjög drjúgur þegar á leið leikinn á línunni. Guðmundur Hólmar lék mjög vel í vörninni í sínum fyrsta landsleik á stórmóti. Aron Pálmars dró vagninn í sókninni og er líklegur til að fara á kostum á EM ef fram heldur sem horfir. Leikurinn þróaðist á margan hátt illa fyrir íslenska liðið. Sérstaklega hvað það varðar að Ísland fékk aðeins eitt hraðaupphlaup og úr því skoraði fyrirliðinn Guðjón Valur. Engu að síður tókst Íslendingum að ná stigunum sem í boði voru. 

Norðmenn reyndust erfiðari andstæðingur en oft áður. Ný kynslóð leikmanna sem eru á uppleið lét til sín taka og þá sérstaklega í sókninni. En Björgvin Páll varði á mikilvægum augnablikum og varði til dæmis vítakast í síðari hálfleik þegar Íslendingar voru manni færri. Alls varði hann 15/2 skot. Aron var markahæstur en Guðjón kom næstur með 6/4 mörk en hann fékk nánast engin skotfæri í leiknum ef frá eru talin vítaköstin en hann skoraði úr öllum fjórum sem Ísland fékk í leiknum. Alexander og Arnór Atla skoruðu þrjú hvor og sýndu frumkvæði þegar á þurfti að halda. Gerðu þeir til að mynda vel í síðustu sókn Íslands. Þá var Aron tekinn úr umferðinn og þeir stimpluðu fyrir Guðjón sem fékk galopið færi í horninu. 

Ásamt Guðmundi Hólmari báru Vignir og Bjarki Már hitann og þungann af varnarleiknum. Mikið mun mæða á þeim fyrir miðju varnarinnar í mótinu. Íslenska liðið lék á löngum köflum framliggjandi vörn sem hentaði Guðmundi vel. 

Næsti leikur Íslands í keppninni er á móti Hvíta-Rússlandi á sunnudaginn og síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni verður gegn sterku liði Króatíu á þriðjudaginn. Fyrsti leikur riðilsins, á milli Króata og Hvít-Rússa, hófst klukkan 15.00 í sömu höll og þar unnu Króatar sigur, 26:21, eftir jafna  baráttu lengst af og 15:15 í hálfleik. 

Ísland 26:25 Noregur opna loka
60. mín. Leik lokið Ísland sigraði með eins marks mun eftir háspennuleik. Enn og aftur vinnur Ísland leik á móti Noregi á stórmóti. Þessi stóð tæpt en stigin eru Íslendinga. Frábær byrjun á EM.
mbl.is