Strákarnir áttu þetta inni hjá mér

Björgvin Páll Gústavsson fagnar í sigrinum á Norðmönnum.
Björgvin Páll Gústavsson fagnar í sigrinum á Norðmönnum. Ljósmynd / Foto Olimpik

„Þetta er bara fullkomin byrjun á þessu móti,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson við Mbl.is eftir að hafa varið lokaskot Norðmanna og tryggt Íslandi eins marks sigur í fyrsta leiknum á EM í handbolta í Póllandi í kvöld.

„Leikurinn snerist bara um einhverja baráttu. Við erum búnir að kortleggja Norðmennina í ég veit ekki hvað marga daga, og þeir örugglega okkur líka, og þetta snerist bara um hvort liðið væri geðveikara. Ég held að við höfum sýnt að við erum geðveikari. Við höfðum aðeins of mikið fyrir þessu en þegar viljinn er svona mikill er ótrúlega erfitt að vinna okkur,“ sagði Björgvin.

Norðmenn fengu 10 sekúndur í lokasókn sína sem endaði með skoti sem Björgvin varði:

„Við vissum að þeir myndu setja aukamann í vesti inn á, og markmiðið var bara að leyfa ekkert auðvelt mark. Vörnin gerði mér þetta nokkuð þægilegt. Þeir komust í þvingað skot sem ég átti reyndar í smávandræðum með því ég var blindaður, en strákarnir áttu það inni hjá mér að verja þennan bolta eftir frábæra varnarvinnu allan leikinn,“ sagði Björgvin, sem var ekki ánægður með sína frammistöðu í kvöld:

„Ég er grútfúll með minn leik, bara út af því hvað hornamennirnir skoruðu mikið. Við viljum að sóknirnar endi úti í hornunum og ég hefði viljað vera með betra hlutfall varinna skota þar. En ég vil miklu frekar vera fúll með mína frammistöðu og vinna leikinn en vera ánægður með mitt og tapa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert