Atvinnulaus leikmaður er hættulegur

„Þetta var auðvitað hörkuleikur sem situr í mönnum, en það sluppu allir ómeiddir,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari við Mbl.is í dag, á hóteli íslenska karlalandsliðsins í handbolta hér í Katowice í Póllandi.

Ísland vann sætan sigur á Noregi í gærkvöld og mætir næst Hvíta-Rússlandi á morgun kl. 15. Aron vildi ekki taka undir að það flokkaðist sem hneyksli ef Ísland tapaði þeim leik:

„Það er ekki hægt að tala um skyldusigur í Evrópumóti. Öll liðin hérna eru sterk og þetta er sterkasta handboltamót sem er hægt að fara á. Hvít-Rússarnir eru kannski fyrir fram álitnir lakasta liðið en þetta er mjög leikreynt lið, með færan þjálfara, og góðir í að spila á veikleika andstæðingsins. Við þurfum að eiga við mjög leikreynda vinstri skyttu í Rutenka, og hans línuspil, og svo er miðjumaðurinn einnig mjög góður. Í okkar sókn munum við standa frammi fyrir mismunandi verkefnum, gegn 5-1 vörn, 3-2-1 vörn og þess vegna 6-0 vörn,“ sagði Aron.

Besti leikmaður Hvíta-Rússlands um langt árabil er skyttan magnaða Siarhei Rutenka, sem varð Evrópumeistari með Barcelona síðasta vor en það var í sjötta sinn sem hann vinnur Meistaradeildina. Rutenka er hins vegar í slæmu leikformi því hann fór frá Barcelona til að spila í Katar í upphafi þessarar leiktíðar, og hefur svo verið án félags síðan í nóvember:

„Hann er kannski ekki í besta formi lífsins en hann er atvinnulaus, og atvinnulaus leikmaður er mjög „mótiveraður“. Hann notar mótið til að spila sig inn á samning, þetta er mjög leikreyndur maður með góðan leikskilning, og hann er stórhættulegur,“ sagði Aron.

mbl.is