Róbert rauf múrinn með glæsimarki

Róbert Gunnarsson í þann mund að skora sitt 100. EM-mark …
Róbert Gunnarsson í þann mund að skora sitt 100. EM-mark fyrir íslenska landsliðið. Ljósmynd / Foto Olimpik

Róbert Gunnarsson skoraði sitt eitt hundraðasta EM mark með glæsibrag í gærkvöldi í sigurleiknum á Norðmönnum, 26:25, á Evrópumeistaramótinu. Á 56. mínútu stökk Róbert sér inn í vítateiginn og snéri bakinu að markinu og kastaði boltanum aftur fyrir sig og marknetið framhjá Espen Christiansen markverði norska landsliðsins. 

Þetta var fyrra mark Róberts í leiknum og með því náði íslenska landsliðið tveggja marka forskoti, 24:22. Róbert skoraði síðan mínútu síðar annað mark sitt í leiknum. Bæði mörk Róberts í leiknum urðu til eftir stoðsendingar frá Aroni Pálmarssyni.

Róbert var nærri því að skora 100. EM-markið á mótinu fyrir tveimur árum en tókst ekki að skora í tveimur síðustu leikjum íslenska landsliðsins á mótinu, gegn Dönum og Pólverjum. En nú er Róbert kominn í gang á nýjan leik. 

Róbert hefur þar með skorað 101 mark í 35 EM-leikjum með íslenska landsliðinu hann tekur nú þátt í sinu sjöunda Evrópumeistaramóti. Fyrsti EM-leikur Róberts var gegnTékkum í Celje í Slóveníu á EM 2004. Leiknum lauk með jafntefli, 30:30. Róbert skoraði ekki mark í leiknum.

Róbert er fjórði íslenski landsliðsmaðurinn til þess að skora yfir 100 mörk í úrslitakeppni. Hinir eru Guðjón Valur Sigurðsson með 245 mörk í 49 leikjum, Ólafur Stefánsson með 184 mörk í 33 leikjum og Snorri Steinn Guðjónsson 136 mörk í 31 leik.  Arnór Atlason er næstur á eftir Róberti með 84 mörk í 24 leikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert