„Við erum svolítið í þéttum og hættulegum riðli“

Dagur Sigurðsson þjálfari Þýskalands
Dagur Sigurðsson þjálfari Þýskalands mbl.is/Golli

„Við erum í svolítið þéttum og hættulegum riðli,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska landsliðsins, sem stýrir því nú í annað sinn á stórmóti eftir að hafa náð góðum árangri á heimsmeistaramótinu í Katar fyrir ári og tryggt því sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Dagur tók við Þýskalandi í nokkuð djúpum öldudal, ef svo má segja, því þetta lið sem þrívegis hefur unnið til verðlaun á EM og varð heimsmeistari árið 2007, komst síðast í undanúrslit á stórmóti árið 2008. Liðinu mistókst að komast áfram úr undankeppni EM 2014 og HM 2015, en fékk svo sæti á HM vegna ákvörðunar Alþjóðahandknattleikssambandsins um að draga lið Ástralíu úr keppni.

Síðasta vetur stýrði Dagur þýska landsliðinu samhliða því að vera þjálfari Füchse Berlín, en hann hefur frá síðasta sumri getað einbeitt sér alfarið að landsliðinu. Þjóðverjar leika á EM í hinum afar sterka C-riðli með Spáni, Svíþjóð og Slóveníu:

„Spánverjarnir eru sterkasta liðið, en svo erum við, Svíar og Slóvenar á svipuðu róli. Þetta getur farið í allar áttir. Við erum með svo nýsamansett lið, ekki ósvipað og þegar við fórum á HM fyrir ári, þannig að tilfinningin fyrir þessu móti er ekkert ósvipuð. Það er svolítið mikil óvissa í gangi, og þetta er allt frekar nýtt, öfugt við það sem er til dæmis hjá íslenska liðinu sem er mjög rótgróið og samhæft,“ sagði Dagur við Morgunblaðið.

Einn eftir í vinstra horninu

Þjóðverjar hafa verið hrikalega óheppnir varðandi meiðsli í aðdraganda mótsins, og þegar Morgunblaðið ræddi við Dag fyrir viku höfðu áföllin dunið á hópnum:

„Við misstum Paul Drux strax í sumar og það var töluvert högg. Svo var kannski verst fyrir að okkur að missa Patrick Wienscek, línumanninn, sem er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur í vörn og sókn. Síðan detta hornamennirnir okkar út, báðum megin (Uwe Gensheimer og Patrick Grötzki úr Rhein-Neckar Löwen, og Matthias Musche úr Magdeburg), og ég var því kominn með Michael Allendorf úr Melsungen sem meiddist svo á fyrstu æfingu.

Svo er ég með enn einn hornamanninn, Rune Dahmke úr Kiel, sem er búinn að vera meiddur síðustu vikur en getur vonandi komist af stað. Hann er síðasti vinstri hornamaðurinn í 28 manna hópnum sem við tilkynntum fyrir mót. Síðasta hálmstráið,“ sagði Dagur, sem var þó hinn rólegasti yfir stöðunni:

„Þetta kollvarpaði ekki neinu fyrir mig. Við erum að spila nokkurn veginn sama bolta og við höfum gert og ég geri ekki nein langtímaplön heldur bíð og sé hvaða leikmenn verða til staðar. Það er ekki hægt að byggja þetta neitt upp á 1-2 mönnum, því það getur alltaf einhver dottið út. Maður þarf að geta sýnt sveigjanleika. En án þess að ég sé að grenja mikið yfir þessari stöðu þá er þetta helvíti mikið högg. Við vorum að yngja liðið upp fyrir HM og erum núna búnir að gera einhverjar 8-9 breytingar síðan þá, þar af fimm vegna meiðsla. Þetta er aðeins of skarpt, hvað varðar breytingar,“ sagði Dagur.

Alltaf töluverðar væntingar

Hann segir að þrátt fyrir þessar breytingar sé skýr krafa hjá þýsku þjóðinni um að ná góðum árangri á EM:

„Það eru alltaf töluverðar væntingar hjá þýsku þjóðinni og fjölmiðlum. Ég er aðeins búinn að vera að benda á að við spiluðum góða undankeppni, þegar við vorum með fullt lið, og tryggðum okkur inn á mótið, sem hefur ekki alltaf verið tilfellið að undanförnu. Síðan hef ég bent á að við vorum í styrkleikaflokki 3 þegar dregið var í riðla, sem bendir til að við ættum að enda í 9.-12. sæti. En ég tel okkur eiga möguleika gegn öllum liðunum í riðlunum. Við erum engir eftirbátar Svía eða Slóvena, en þurfum kannski einhverja heppni með okkur til að vinna Spánverja,“ sagði Dagur.

Spánverjar mæta enn á ný með firnasterkt lið til leiks. Þeir hafa átt fast sæti í undanúrslitum á síðustu stórmótum, tóku bronsverðlaun á síðasta EM og urðu heimsmeistarar á heimavelli árið 2013. Erfitt er að velja úr ákveðna lykilmenn úr þessum frábæra hópi, en þó má nefna leikstjórnandann Raúl Entrerrios og línumanninn Julen Aguinagalde. Dagur þekkir spænska liðið afar vel, en Þýskaland og Spánn voru saman í undanriðli og unnu sin leikinn hvort. Spánn endaði þó ofar í undanriðlinum:

Það þarf allt að ganga upp gegn Spánverjum

„Spánverjar eru reyndastir og með best samhæfða liðið í riðlinum. Við unnum fyrri leikinn gegn þeim í undankeppninni, og spiluðum svo í raun okkar besta leik gegn þeim á Spáni, en töpuðum samt nokkuð stórt. Það þarf allt að ganga upp gegn þeim. Við þurfum góða vörn og markvörslu, og að stoppa þeirra lykilmenn, sem eru samt úti um allan völl,“ sagði Dagur.

Svíar komu í riðilinn úr 2. styrkleikaflokki. Þeir hafa unnið EM oftast allra, eða fjórum sinnum, en það var þegar gullkynslóð þjóðarinnar var upp á sitt besta, á árunum 1990-2002. Síðan þá hafa Svíar ekki komist í undanúrslit á EM. Liðið reiðir sig mikið á sterka vörn, markvörslu og hraðaupphlaup. Því eru markvörðurinn Mattias Andersson og varnartröllið Tobias Karlsson, báðir leikmenn Flensburg, í lykilhlutverkum.

Slóvenar með frábæra menn

„Svíar eru að fara í gegnum smábreytingar og eru á svipuðu róli og við. Þeir eru með rosalega sterka vörn og góða markvörslu, og lifa svolítið á því,“ sagði Dagur. Hann segir ekki ástæðu til þess að telja Slóvena fyrir fram lakasta liðið í riðlinum. Slóvenar höfnuðu í 8. sæti á HM í Katar og tryggðu sér sæti í forkeppni Ólympíuleikanna, og eru með frábæra leikmenn eins og leikstjórnandann Uros Zorman í sínum röðum. Þjálfari liðsins er Veselin Vujovic, sem tók við því í maí í fyrra, en hann þjálfar einnig margfalda Króatíumeistara RK Zagreb og þykir afar fær þjálfari.

„Við mættum Slóvenum á æfingamóti í vetur, og þeir voru mjög sprækir þrátt fyrir að það vantaði töluvert af mönnum í liðið þá. Þeir eru komnir með Vujovic sem þjálfara, og það er svolítil uppsveifla hjá þeim. Ég er ekkert allt of öruggur með mig gagnvart þeim, en alls ekkert að gera í buxurnar heldur,“ sagði Dagur, sem mætir Spánverjum í fyrsta leik hinn 16. janúar kl. 17.30.

Þessi grein er úr 24 síðna EM-blaði Morgunblaðsins sem kom út í gærmorgun.