Burðarásinn þolir minna álag

Siarhei Rutenka og Guðjón Valur Sigurðsson í búningi Barcelona.
Siarhei Rutenka og Guðjón Valur Sigurðsson í búningi Barcelona. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Fyrirfram má ætla að Hvíta-Rússland sé lakasta liðið í B-riðli. Hvít-Rússar hafa vissulega í sínum röðum eina stórstjörnu, Siarhai Rutenka, en að þessu sinni er þessi frábæra skytta í mjög lítilli leikæfingu og óvíst hve vel í stakk búinn hann er til að draga vagninn fyrir þjóð sína. Aðalmarkvörður liðsins, Vitali Cherepenko, missir af mótinu vegna meiðsla, og það sama má segja um bróður Rutenka, hægrihornamanninn Dzianis.

Þjálfarinn Yuri Shevtsov hefur stýrt Hvíta-Rússlandi frá árinu 2009 og skilað því á fjögur stórmót í röð. Árangurinn á þessum mótum hefur hins vegar ekki verið neitt sérstakur. Lengst náði liðið á EM í Danmörku fyrir tveimur árum þegar það komst í milliriðla en tapaði öllum sínum leikjum þar. Hvít-Rússar setja stefnuna á að komast aftur á milliriðlastigið nú en það gæti reynst þrautin þyngri. Liðið virðist ekki í stakk búið til að taka „næsta skref“, nú þegar það er orðið fastagestur á stórmótum eftir að hafa ekki leikið á slíku á 13 ára tímabili fram til 2008.

Misheppnuð Katarsför Rutenka

Rutenka eldri er algjör leiðtogi í landsliðinu. Hann er enn aðeins 34 ára gamall og ætti að geta skorað á annan tug marka í leik eins og hann hefur svo oft gert fyrir landsliðið, en er ekki í sínu besta líkamlega ástandi. Rutenka yfirgaf Evrópumeistara Barcelona í byrjun þessarar leiktíðar til að spila í Katar með sama liði og Ólafur Stefánsson lék með undir lok síns ferils, Lekhwiya. Rutenka líkaði dvölin í Katar ekki nægilega vel og yfirgaf félagið í byrjun desember og hefur verið án félags síðan.

Rutenka hefur lengi verið í fremstu röð og orðið Evrópumeistari með félagsliðum sínum alls sex sinnum! Hann sló fyrst í gegn á EM ungmenna árið 2000 þegar Hvíta-Rússland náði óvænt í silfurverðlaun. Rutenka gekk svo til liðs við Celje Lasko í Slóveníu og varð Evrópumeistari með liðinu árið 2004. Hann endurtók þann leik með spænska liðinu Ciudad Real árin 2006, 2008 og 2009, þegar hann lék með Ólafi Stefánssyni, og með Barcelona varð hann Evrópumeistari 2011 og svo aftur síðastliðið vor. Hvít-Rússar stóla alltaf á Rutenka og mörk frá honum, en hann varð til að mynda markakóngur Evrópumótsins í Sviss 2006.

Öflugur leikstjórnandi

Barys Pukhouski er einnig lykilmaður, en hann er reyndur og hæfileikaríkur leikstjórnandi úr liði Motor Zaporozhye í Úkraínu. Artsem Karalek, sem leikur með SKA Minsk í heimalandinu, þykir svo afar efnilegur línumaður en hann er aðeins 19 ára. Hann var í aðalhlutverki þegar Hvíta-Rússland náði sínum besta árangri á HM 21 árs og yngri í Brasilíu síðasta sumar og hafnaði í 6. sæti. Karalek hefur þó glímt við meiðsli.

Hvíta-Rússland á landamæri að Póllandi og spurning hvort það skilar liðinu góðum stuðningi í Katowice. Rutenka hefur sagt að markmið liðsins sé einfaldlega það að verða sér ekki til skammar á mótinu, allt þurfi að ganga upp til að Hvíta-Rússland fari upp úr sínum riðli. Vináttulandsleikir liðsins fyrir mót þóttu gefa ágæt fyrirheit, en liðið gerði jafntefli við Rússland og Holland og tapaði með eins marks mun fyrir Argentínu.

Ísland og Hvíta-Rússland frá upphafi

2016

Ísland – Hv.Rússland, EM ??

2013 Ísland – Hv.Rússland, Minsk 23:29

2012 Ísland – Hv.Rússland, Reykjavík 36:28

2005 Ísland – Hv.Rússland, Minsk 34:31

2005 Ísland – Hv.Rússland, Kaplakriki 33:24

2001 Ísland – Hv.Rússland, Reykjavík 26:27

2001 Ísland – Hv.Rússland, Minsk 30:23

1997 Ísland – Hv.Rússland, Torrejon 30:22

1995 Ísland – Hv.Rússland, HM 24:29

1994 Ísland – Hv.Rússland, Reykjavík 23:18

1994 Ísland – Hv.Rússland, Reykjavík 26:29

1989 Ísland – Hv.Rússland, Bratislava 22:29

Af 11 viðureignum þjóðanna hefur Ísland unnið sex en Hvíta-Rússland fimm. Hvít-Rússar voru ekki orðnir að sjálfstæðri þjóð þegar liðin mættust 1989.

Þessi grein er úr 24 síðna EM-blaði Morgunblaðsins sem kom út á föstudagsmorguninn.