Vitum hvernig Íslendingar spila

Siarhei Rutenka skýtur að marki Íslands í leiknum í Katowice ...
Siarhei Rutenka skýtur að marki Íslands í leiknum í Katowice í dag. Ljósmynd/EHF

Siarhei Rutenka, stórskytta Hvíta-Rússlands sem meðal annars hefur unnið Meistaradeild Evrópu sex sinnum, var hæstánægður eftir sigurinn á Íslandi í B-riðli Evrópumótsins í handbolta í dag.

Rutenka skoraði 8 mörk í 39:38-sigri Hvít-Rússa sem eru því með tvö stig líkt og hin liðin þrjú í B-riðlinum, fyrir lokaumferðina á þriðjudaginn.

„Þetta er sögulegur sigur og við erum mjög ánægðir. Þetta var erfiður leikur. Við náðum í tvö stig sem er afar mikilvægt, en við eigum einnig eftir annan mjög mikilvægan leik við Noreg. Við höfum engan tíma til að fagna og reynum núna að jafna okkur vel til að vera upp á okkar besta í næsta leik,“ sagði Rutenka við vef EHF.

„Við höfum mætt Íslandi nokkrum sinnum og vitum hverjir þeir eru og hvernig þeir spila. Þeir voru sigurstranglegri og við berum mikla virðingu fyrir þeim. Þess vegna erum við svo virkilega ánægðir með þennan sigur,“ sagði Rutenka, sem segist aldrei í leiknum hafa verið farinn að gæla við möguleikann á sigri:

„Við vorum ekkert að hugsa um að sigra. Við spiluðum bara þar til lokaflautið gall.“

mbl.is