Ísland númer fjögur í ÓL-slagnum

Vignir Svavarsson skorar gegn Hvít-Rússum. Þjóðirnar eru báðar í baráttu …
Vignir Svavarsson skorar gegn Hvít-Rússum. Þjóðirnar eru báðar í baráttu um að komast í forkeppni Ólympíuleikanna. Ljósmynd/Foto Olimpik

Allar níu þjóðirnar sem berjast um tvö sæti í forkeppni Ólympíuleikanna á Evrópumóti karla í handknattleik í Póllandi hafa tapað í fyrstu tveimur umferðunum og þrjár þeirra eru án stiga að tveimur leikjum loknum.

Ísland er ein af sex þjóðum sem er með tvö stig, einn sigur og eitt tap, í mótinu til þessa. Ljóst er að í það minnsta tvær þjóðir, jafnvel þrjár eða fjórar, af þessum níu komast ekki í milliriðla og verða með því úr leik í baráttunni um að komast til Ríó 2016.

Staðan hjá þessum níu þjóðum eftir tvær umferðir:

1. Ungverjaland, 2 stig, markatala 58:54
2. Noregur, 2 stig, markatala 59:57
3. Svíþjóð, 2 stig, markatala 49:48
4. Ísland, 2 stig, markatala 64:64
5. Hvíta-Rússland, 2 stig, markatala 60:64
6. Rússland, 2 stig, markatala 52:57
7. Svartfjallaland, 0 stig, markatala 55:62
8. Makedónía, 0 stig, markatala 46:54
9. Serbía, 0 stig, markatala 54:65

Annaðhvort Makedónía eða Serbía fellur úr keppni í A-riðli.

Líklegt er að Ísland, Noregur eða Hvíta-Rússland verði eitt þeirra liða sem fellur úr keppni í B-riðli, en þó gætu þau öll komist áfram.

Svíar gætu fallið úr keppni í C-riðli.

Svartfellingar eða Rússar falla úr keppni í D-riðli.

Þegar riðlakeppninni lýkur á miðvikudagskvöld munu standa eftir fimm til sjö af þessum níu liðum og þau tvö þeirra sem ná lengst á mótinu fara í forkeppni ÓL í apríl.

Reyndar er mjög líklegt að Makedónía komist þangað, hvernig sem fer hjá liðinu í þessari keppni. Ef Pólland, Króatía, Spánn, Þýskaland, Slóvenía eða Danmörk verður Evrópumeistari, eða tapar fyrir Frökkum í úrslitaleik, fer sú þjóð beint á ÓL í Ríó og Makedónía kemst í forkeppnina í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert