Unnu Króata síðast fyrir tólf árum

Guðjón Valur Sigurðsson í leik gegn Króötum árið 2011.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik gegn Króötum árið 2011. mbl.is/Golli

Tólf ár eru liðin frá því Íslendingar fögnuðu síðast sigri á móti Króötum en liðin eigast við í afar þýðingarmiklum leik í lokaumferð B-riðilsins á EM í Póllandi annað kvöld.

Ísland hafði betur á móti Króatíu, 31:30, á æfingamóti í Gautaborg í Svíþjóð árið 2004 en síðan þá hafa liðin mæst fimm sinnum þar sem Króatar hafa farið með sigur af hólmi í miklum spennuleikjum.

Í 11 leikjum hafa Króatar haft betur sjö sinnum, Íslendingar tvisvar og tvívegis hefur jafntefli orðið niðurstaðan.

Liðin áttust síðast við í forkeppni Ólympíuleikanna árið 2012 þar sem Króatar höfðu betur á heimavelli, 31:28.

mbl.is