Við berum allir ábyrgð

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, undirbýr lið sitt nú fyrir „úrslitaleik“ annað kvöld gegn Króatíu en þá ræðst hvort Ísland kemst áfram í milliriðla á EM eða endar í neðsta sæti B-riðils.

Ísland tapaði 39:38 fyrir Hvíta-Rússlandi í gær en Aron og leikmenn virtust búnir að jafna sig ágætlega eftir þann leik þegar þeir hittu fjölmiðlamenn á hóteli sínu í Katowice í dag. Aðspurður um sína ábyrgð á því hvernig fór í gær svaraði Aron:

„Við berum allir ábyrgð. Við erum einn hópur, vinnum saman og töpum saman. Það á við um mig eins og alla.“

„Það er auðvitað óheyrilegt að fá á sig 39 mörk á móti Hvít-Rússum. Það er sama hvar er tekið niður hvað það varðar. Við vorum alls staðar að gera mistök varnarlega,“ sagði Aron, sem ætlar ekki að gera breytingar á leikmannahópi sínum fyrir leikinn við Króatíu, en hann skipti Ólafi Guðmundssyni inn fyrir Kára Kristján Kristjánsson í gærmorgun.

„Ég á ekki von á því. Núna er bara allt eða ekkert leikur á móti Króatíu. Vinnum við og förum áfram með 4 stig, eða töpum við og förum þá væntanlega heim? Þetta er bara úrslitaleikur og við þurfum að finna orkuna saman sem lið, og mæta galvaskir í leikinn,“ sagði Aron, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert