Hverjir eru möguleikar Íslands?

Ísland hefur fengið góðan stuðning í fyrstu tveimur leikjunum. Í …
Ísland hefur fengið góðan stuðning í fyrstu tveimur leikjunum. Í kvöld verður allt undir en staðan mun verða skýrari eftir að leik Noregs og Hvíta-Rússlands lýkur Ljósmynd/Foto Olimpik

Sú magnaða staða er fyrir leiki lokaumferðarinnar í B-riðli Evrópumóts karla í handknattleik að Króatía, Noregur, Ísland og Hvíta-Rússland eru öll jöfn að stigum, með 2 stig hvert eftir tvær umferðir, og eiga öll svipaða möguleika á að vinna riðilinn - eða þá að lenda í neðsta sætinu og halda heimleiðis eftir leikina í kvöld.

Þrjú liðanna komast í milliriðil og mæta þar Frökkum og Pólverjum, ásamt annaðhvort Makedóníumönnum eða Serbum, en eitt þeirra, það sem endar í neðsta sæti, hefur lokið keppni í kvöld og heldur heimleiðis.

Noregur og Hvíta-Rússland mætast klukkan 17.15 og að þeim leik loknum verður á hreinu hvað verður í húfi í viðureign Íslands og Króatíu, sem hefst klukkan 19.30.

Þar eru nokkrir möguleikar í boði og við skulum sjá hvað gerist í hverju tilviki fyrir sig. Athugið að það eru innbyrðis úrslit liðanna sem eru jöfn að stigum sem ráða því hvort endar ofar, ekki heildar markatalan. Hún ræður aðeins ef þau hafa gert jafntefli sín á milli.

1) Ef Norðmenn vinna Hvít-Rússa verður Ísland að fá stig gegn Króatíu. Endi sá leikur með jafntefli færu bæði lið áfram, Ísland færi með 3 stig í milliriðil, Noregur 2 og Króatía 1 stig. Hvít-Rússar færu heim. Lokastaðan væri Noregur 4, Króatía 3, Ísland 3, Hvíta-Rússland 2 stig.

Ef Ísland vinnur Króatíu fer Ísland áfram með 4 stig, Noregur með 2 stig og Króatía með ekkert stig en Hvít-Rússar færu heim. Lokastaðan væri Ísland 4, Noregur 4, Króatía 2, Hvíta-Rússland 2 stig.

Ef Króatía vinnur Ísland fara Norðmenn með 4 stig áfram, Króatar 2 og Hvít-Rússar án stiga en Ísland færi heim Lokastaðan væri Noregur 4, Króatía 4, Hvíta-Rússland 2, Ísland 2 stig.

2) Ef Noregur og Hvíta-Rússland gera jafntefli þarf Ísland jafntefli gegn Króatíu til að fara áfram. Þá myndu öll liðin enda jöfn að stigum og Hvít-Rússar sætu eftir með verstu markatöluna og færu heim. Þá færi Ísland áfram með 3 stig, Noregur með 2 stig og Króatía með 1 stig. Lokastaðan væri Króatía 3, Noregur 3, Ísland 3 og Hvíta-Rússland 3 stig.

Ef Ísland myndi vinna Króatíu færi Hvíta-Rússland áfram með 3 stig, Ísland með 2 stig og Noregur með 1 stig en þá yrðu Króatar neðstir og færu heim. Lokastaðan væri Ísland 4, Hvíta-Rússland 3, Noregur 3 og Króatía 2 stig.

Ef Króatía myndi vinna Ísland færi Noregur áfram með 3 stig, Króatía með 2 stig og Hvíta-Rússland með 1 stig en Ísland yrði í neðsta sæti og færi heim. Lokastaðan væri Króatía 4, Noregur 3, Hvíta-Rússland 3 og Ísland 2 stig.

3) Ef Hvíta-Rússland vinnur Noreg er Ísland komið áfram, hvernig sem leikurinn gegn Króatíu endar, vegna sigursins á Norðmönnum í innbyrðis leik liðanna.

Þá kæmist Ísland áfram með þau stig sem fengjust úr leiknum við Króatíu, ekkert eða eitt, eða þá stigin tvö gegn Noregi ef leikurinn vinnst - því þá væri Króatía úr leik!

Króatía vinnur Ísland: Króatía 4, Hvíta-Rússland 4, Ísland 2, Noregur 2 stig. Þá færi Króatía með 4 stig í milliriðil, Hvíta-Rússland 2 en Ísland ekkert.

Jafntefli Íslands og Króatíu: Hvíta-Rússland 4, Króatía 3, Ísland 3, Noregur 2 stig. Þá færi Króatía með 3 stig í milliriðil, Hvíta-Rússland 2 og Ísland 1.

Ísland vinnur Króatíu: Hvíta-Rússland 4, Ísland 4, Noregur 2, Króatía 2 stig. Þá færi Hvíta-Rússland með 4 stig í milliriðil, Ísland 2 en Noregur ekkert.

(Þessi frétt birtist fyrst á sunnudagskvöldið og hefur verið uppfærð vegna leikjanna í kvöld)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert