Íslendingar á heimleið frá EM

Íslenska landsliðið í handknattleik karla er úr leik á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla eftir níu marka tap fyrir Króatíu, 37:28, í Katowice í Póllandi í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn í 12 ár sem íslenska landsliðið kemst ekki upp úr riðlakeppni lokakeppni Evrópumóts í handknattleik karla. Þar með er draumurinn um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna úr sögunni.

Segja má að leikurinn hafi tapast á fyrsta stundarfjórðungi fyrri hálfleiks. Sóknarleikur íslenska landsliðsins var í molum frá upphafi gegn 5/1 vörn Króata. Strax eftir 10 mínútur var munurinn orðinn fimm mörk, 7:2, að þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var forysta Króata orðin níu mörk, 11:2. Íslenska liðið lék hægt og var fyrirsjáanlegt og ekki virtist vera mikið um lausnir, hvorki innan vallar sem utan.

Ekki bætti úr skák að varnarleikurinn var langt frá því að vera viðunandi. Björgvin Páll Gústavsson kom í veg fyrir að munurinn væri meiri en raun varð á að loknum fyrri hálfleik.

Íslenska landsliðið tapaði boltanum 12 sinnum í fyrri hálfleik, oftast á mjög einfaldann hátt.

Króatar voru níu marka forskot í hálfleik, 19:10. Síðari hálfleikur var meira til málamynda. Mest náðu Króatar 12 marka forskoti í síðari hálfleik. Úrslitin voru löngu ráðin.

Norðmenn halda áfram í milliriðl með fjögur stig, Króatar með tvö og Hvít-Rússar án stiga.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Ísland 28:37 Króatía opna loka
60. mín. Leik lokið - þá er þessum ósköpum lokið. Íslenska landsliðið er úr leik, í fyrsta sinn eftir riðlakeppni Evrópumóts í 12 ár.
mbl.is

Bloggað um fréttina