Aldrei skorast undan og byrja ekki á því núna

Guðjón Valur Sigurðsson og Marko Kopljar, sem eru liðsfélagar hjá ...
Guðjón Valur Sigurðsson og Marko Kopljar, sem eru liðsfélagar hjá Barcelona, ræða saman eftir leikinn í kvöld. Ljósmynd / Foto Olimpik

„Menn eru að sjá draum, eða eitthvað sem þeir hafa lagt mikið á sig fyrir, hverfa út í veður og vind,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson landsliðsfyrirliði dapur í bragði eftir að Ísland féll úr leik á EM í handbolta í kvöld.

„Það er ekki bara þetta mót heldur Ólympíuleikar og ýmislegt sem hefur hangið á spýtunni og „mótiverað“ menn. Þess vegna eru gríðarleg vonbrigði sem liggja að baki svona tapi, og ekki bara tapi heldur hvernig það er til komið. Mér finnst það ofsalega erfitt að sætta mig við og kyngja,“ sagði Guðjón Valur.

Fyrirliðinn, sem er orðinn 36 ára gamall, heldur til Þýskalands í sumar en hann hefur samið við Rhein-Neckar Löwen á nýjan leik. Gríðarlegt álag fylgir því að spila fyrir lið sem er í toppbaráttu þýsku 1. deildarinnar og þátttakandi í Meistaradeild Evrópu, en Guðjón segir að þetta skref þýði ekki að hann muni fórna landsliðssætinu til að minnka álagið.

„Ég hef aldrei sagt að ég gefi ekki kost á mér í landsliðið, aldrei skorast undan áskorun, og ég er ekki að fara að byrja á því núna. Ef að þjálfarinn telur mig nógu góðan og hefur þörf fyrir mig þá er ég til staðar. Ef hann vill sjá einhverja aðra þá er það algjörlega hans mál og val,“ sagði Guðjón.

mbl.is