Merkel sló á þráðinn til Dags

Angela Merkel hringdi í Dag Sigurðsson og óskaði honum til ...
Angela Merkel hringdi í Dag Sigurðsson og óskaði honum til hamingju með árangur þýska landsliðsins í handknattleik á EM. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er nýjasti aðdáandi þýska handknattleikslandsliðsins. Merkel hreifst svo eftir sigur Þjóðverja á Norðmönnum í undanúrslitum Evrópumótsins í gærkvöldi að hún tók upp símann og hringdi beint í Dag Sigurðsson, landsliðsþjálfara, til þess að óska honum og leikmönnum til hamingju með frábæran árangur á EM.

„Þýska landsliðið hefur hrifið okkur öll með baráttugleði og sigurvilja,“ er sagt að Merkel hafi m.a. sagt í umræddu símtali við Dag um leið og hún lét þess getið að hún ætlaði sér að fylgjast með úrslitaleiknum á morgun gegn Spánverjum eins og milljónir annarra Þjóðverja. Sjaldan hafa fleiri áhorfendur fylgst með handboltaleik í sjónvarpi og undanúrslitaleik Þjóðverja og Norðmanna. Hálf ellefta milljón Þjóðverja sat við skjái og horfði á framlengingu leiksins.

„Það er mikill heiður fyrir okkur að fá upphringingu frá æðstu yfirvöldum Þýskalands,“ sagði Dagur við þýska fjölmiðla í dag. „Við erum stoltir og þakklátir fyrir stuðning kanslarans og vitum að Merkel er komin í hóp stuðningsmanna landsliðsins,“ er ennfremur haft eftir Degi.

Merkel hefur haft nóg að gera í símanum því hún hringdi ennfremur í þýsku tenniskonuna Angelique Kerber sem vann í morgun Opna ástralska meistaramótið.

mbl.is

Bloggað um fréttina