Þetta er ofboðslega góð tilfinning

Dagur Sigurðsson lyftir hér skildinu sem Þjóðverjar fengu í sigurlaun …
Dagur Sigurðsson lyftir hér skildinu sem Þjóðverjar fengu í sigurlaun fyrir sigurinn á EM í Póllandi. AFP

Dagur Sigurðsson stýrði þýska landsliðinu til sigurs á Evrópumótinu í handknattleik karla, en liðið vann öruggan sigur gegn Spánverjum í úrslitlaleik síðdegis í dag. Dagur var að vonum kampakátur í samtali við þýska fjölmiðla eftir leikinn.

„Þetta er ofboðslega góð tilfinning. Það var ótrúlega góð liðsheld í þessum einstaklega samhelda hópi sem ég hef á að skipa. Við erum með frábært lið og það eru leikmennirnir sem eiga heiður skilinn fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig,“ sagði Dagur í samtali við þýska fjölmiðla eftir leikinn

„Nú er kominn tími á að njóta þess árangurs sem vinnan hefur leitt af sér. Mig langar að þakka leikmönnum, sjálfboðaliðum sem starfa í kringum liðið og síðast en ekki síst stuðningsmönnum liðsins sem hafa staðið að baki liðinu allan tímann,“ sagði Dagur sigurreifur.

Dagur er annar íslenski landsliðsþjálfarinn til þess að bera sigur úr býtum á Evrópumóti í handknattleik, en Þórir Hergeirsson hefur einnig leitt norska kvennalandsliðið til sigurs í Evrópumóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert