„Hef ágæta tilfinningu“

Geir Sveinsson veitir króatískum fjölmiðlum viðtal í Split.
Geir Sveinsson veitir króatískum fjölmiðlum viðtal í Split. mbl.is/Kris

Að mörgu er að hyggja hjá landsliðsþjálfaranum Geir Sveinssyni í lokaundirbúningi fyrir EM í handbolta sem hefst í Króatíu á morgun. Geir segist hafa lagt álíka mikla áherslu á vörn og sókn í lokaundirbúningi liðsins. 

„Undirbúningurinn fyrir mót er eins og spírall. Þú byrjar með víða mynd bæði hvað varðar vörn og sókn. Við vorum með ákveðnar hugmyndir. Þegar við lögðum af stað í leikina á móti Þjóðverjum þá erum við með í undirmeðvitundinni að nýta okkur hér það sem við unnum með þar. En svo fer þetta í spíral og nálgunin þrengist. Við hendum einhverjum áherslum út en tökum aðrar inn. Í lokaundirbúningnum síðustu tvo dagana vorum við að hamra á því sem við ætlum að gera í vörn og sókn á móti Svíum. Í gær lögðum við meiri áherslu á vörn og í dag meiri áherslu á sókn. Fórum yfir alla þá þætti sem skipta máli en reynum að skipuleggja okkur sem best og hafa þetta ekki of stóra mynd. Vonandi ganga okkar áherslur upp,“ sagði Geir þegar mbl.is spjallaði við hann í Split. 

Geir segir áherslurnar geta breyst hratt á stórmótum. Þættir sem þykir vandamál geti lagast og þættir sem taldir eru í góðu lagi geta orðið vandamál. „Það er nú svo merkilegt. Í fyrra fórum við á HM í Frakklandi. Þá spiluðum við þrjá leiki á móti í Danmörku til að undirbúa okkur. Ekki ósvipaður undirbúningur og var núna. Þá höfðum við miklar áhyggjur af varnarleiknum en svo snérist dæmið við þegar komið var til Frakklands. Vörnin small en einhvern veginn var það pínu á kostnað sóknarinnar. Ég hef ágæta tilfinningu fyrir því sem við leggjum upp með og svo kemur í ljós hvort við höfum veðjað á rétta hluti.“

Ísland mætir Svíþjóð á EM í Split í dag klukkan 17:15 að íslenskum tíma. 

Ítarlegt viðtal við Geir er að finna í EM-blaði Morgunblaðsins sem fylgir blaðinu í fyrramálið.

mbl.is