„Ekki hægt að óska sér betri byrjunar“

Geir Sveinsson í leiknum í dag.
Geir Sveinsson í leiknum í dag. Ljósmynd/EHF

Þjálfarinn Geir Sveinsson var hinn ánægðasti þegar mbl.is hitti hann að máli í Split eftir mikilvægan sigur á Svíum 26:24 í fyrsta leik á EM í handknattleik. 

„Já, þetta var einstaklega sætur sigur. Guð minn góður. Í sjálfu sér er ekki hægt að óska sér betri byrjunar. Mikilvægast var að við höfðum trú á þessu og það sást bæði á upphafsmínútunum og í öllum leiknum. Menn mættu alveg einstaklega einbeittir til leiks. Ég held að við höfum lagt leikinn nokkuð vel upp. Þegar rykið fer að setjast og við kíkjum á leikinn á bandi finnum við sjálfsagt eitt og annað sem við getum lagað. Í seinni hálfleik unnum við ekki þá vinnu sem við ætluðum okkur enda töpuðum við seinni hálfleik með fimm marka mun. En það getur bara verið erfitt að leiða með svo miklum mun. Þá höfðu þeir ekki neinu að tapa. Pressan snerist þá svolítið við því margir töluðu um fyrir leikinn að pressan væri á Svíum. Þeir voru taldir líklegri til að vinna en við. En við höfðum trú á þessu og stóðumst árásir þeirra undir lokin,“ sagði Geir en blaðamaður gat ekki á sér setið að spyrja Geir hvort ekki hefði verið kominn tími á sigur hjá honum gegn Svíum á stórmóti. Geir átti farsælan feril sem landsliðsmaður en fékk ekki að upplifa sem leikmaður að vinna Svía á stórmóti. Hans kynslóð lenti oft illa í sigursælu liði Svía á níunda og tíunda áratugnum. Geir virtist hafa gaman af spurningunni. 

„Jú, það var heldur betur kominn tími á þetta. Biddu fyrir þér. Reyndar er ég þokkalega sáttur við það hvernig okkur hefur gengið gegn Svíum eftir að ég tók við sem landsliðsþjálfari. En á stórmótum er þetta ósköp einfalt. Þau ganga út á stigasöfnun og við fáum tvö fyrir sigurinn.“

mbl.is