Guðjón Valur vanmetinn hjá mótshöldurum

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Evrópska handknattleikssambandið vanmat getu Guðjóns Vals Sigurðssonar til að skora mörk á handboltavellinum þegar það sendi frá sér upplýsingar um markahæstu menn í sögu EM (lokakeppna). Þar er Guðjón markahæstur en þó ekki í gögnum sem dreift er á mótinu. 

Í gögnum um Ísland má sjá að eina lokakeppni vantar hjá Guðjóni í upptalninguna. Þar vantar 2014 þegar keppnin fór fram í Danmörku. Þar lék Guðjón sjö leiki og skoraði 44 mörk. 

Þessi handvömm gerir það að verkum að Frakkinn Nikola Karabatic nær efsta sætinu yfir markahæstu menn í lokakeppnum EM frá upphafi. Á hann eru skráð 226 mörk í 52 leikjum og vantar enga keppni í upptalninguna. Guðjón er sagður vera með 212 mörk í 2. sæti. 

Einari Erni Jónssyni, gömlum herbergisfélaga Guðjóns úr landsliðinu, sárnaði þetta væntanlega fyrir hönd Guðjóns og gerði athugasemd við fjölmiðlafulltrúana í Split en hér er Einar staddur fyrir hönd RÚV. Einar fékk þau skilaboð frá fjölmiðlafulltrúunum eftir athugun þeirra að um handvömm hefði verið að ræða. Var látið fylgja með að á tölfræðideildinni hefðu menn fengið snert af taugaáfalli við þessa uppgötvun. 

Guðjón Valur er sem sagt markahæsti leikmaður í lokakeppnum EM með 256 mörk í 49 leikjum. Sá leikjahæsti frá upphafi er Didier Dinart frá Frakklandi með 57 leiki.

Guðjón Valur Sigurðsson og Einar Örn Jónsson á EM í ...
Guðjón Valur Sigurðsson og Einar Örn Jónsson á EM í Svíþjóð 2002. EM- Skövde ÍSLAND- Sviss Ljósmynd/Janne Andersson
mbl.is