Háspennusigur Frakka gegn Noregi

Norðmaðurinn Eivind Tangen tekur fast á Nikola Karabatic í leiknum …
Norðmaðurinn Eivind Tangen tekur fast á Nikola Karabatic í leiknum í kvöld. AFP

Heimsmeistarar Frakka unnu dramatískan sigur á Noregi þegar þjóðirnar áttust við í B-riðli Evrópumótsins í handknattleik í kvöld, 32:31, en þessi lið mættust einmitt í úrslitum HM fyrir ári.

Leikurinn var jafn og spennandi en það voru þó Frakkar sem voru skrefi framar í upphafi. Þeir náðu þriggja marka forskoti um tíma en Norðmenn skoruðu þrjú mörk í röð um miðbik fyrri hálfleiks og allt var í járnum upp frá því en það var Noregur sem var tveimur mörkum yfir í hálfleik 17:15.

Noregur var með frumkvæðið eftir hlé en náði þó aldrei að hrista Frakka af sér og náðu meistararnir að jafna metin þegar um tíu mínútur voru eftir. Spennan var rafmögnuð í kjölfarið en hálfri mínútu fyrir leikslok skoraði Michael Guigou sigurmark Frakka, 32:31. Norðmenn tóku leikhlé fyrir síðustu sóknina en náðu ekki að skora.

Kentin Mahe var markahæstur hjá Frökkum með 8 mörk en hjá Noregi skoraði Kent Robin Tonnesen 7 mörk. Frakkland og Hvíta-Rússland eru með tvö stig eftir fyrstu umferð B-riðils en Noregur og Austurríki, undir stjórn Patreks Jóhannessonar, eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert